Fara í efni

Leikskólanemar stíga á svið í Sláturhúsinu

07.04.2025 Fréttir

Þriðjudaginn 8. apríl munu elstu nemendur tveggja leikskóla í Múlaþingi stíga á stokk í Sláturhúsinu og flytja lög eftir Braga Valdimar Skúlason. Viðburðurinn ber yfirskriftina Leikur að orðum og er hluti af verkefninu Söngvavor sem teygir anga sína um allt land.

Verkefnið snýst um að efla tónlistarþátttöku elstu barna leikskólanna, kynna tónlistararfinn og tónlistarnám fyrir þeim og gera þeim kleift að efla eigin málskilning og orðaforða í gegnum skapandi leik og starf. Verkefnið byggir á áralangri samvinnu Tónskóla Sigursveins og leikskóla í Reykjavík þar sem elstu nemendur leikskóla æfa og vinna með ákveðin lög og flytja þau síðan á tónleikum með nemendum tónlistarskólans. Í fyrra voru gerðar tilraunir með að útvíkka verkefnið og í ár má segja að verkefið hafi fengið vængi því fjöldi leik- og tónlistarskóla um allt land tekur þátt að þessu sinni. Haldnir verða tónleikar í Reykjavík, Kópavogi, Borgarnesi, Akureyri, Ísafirði, Eskifirði og Egilsstöðum.

Á Austurlandi leiddi Tónlistarmiðstöð Austurlands verkefnið. Í Múlaþingi taka leikskólarnir Tjarnarskógur á Egilsstöðum og Hádegishöfði í Fellabæ  þátt í tónleikunum í Sláturhúsinu en fleiri leikskólar unnu með efnið og nutu góðs af þeim lærdómi sem því fylgdi. Kynnir og kórstjóri á tónleikunum verður Karitas Harpa Davíðsdóttir. Útsetningar voru í höndum Haraldar Vignis Sveinbjörnssonar.

Tónleikarnir fara sem fyrr segir fram í Sláturhúsinu þriðjudaginn 8. apríl klukkan 15:00. Aðgangur er ókeypis og þeir eru öllum opnir.

Mynd: Austurbrú / BRAS
Mynd: Austurbrú / BRAS
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd