Fara í efni

Leikskólabörn sungu af mikilli list

09.04.2025 Fréttir

Í gær fóru fram stuttir en skemmtilegir tónleikar í Sláturhúsinu. Fram kom elsti árgangur leikskólabarna af leikskólunum Tjarnarskógi og Hádegishöfða. 

Börnin sungu lög eftir Braga Valdimar Skúlason og gerðu það afar fallega og af mikilli innlifun. Lögin sem þau fluttu voru Gilligill, syrpa úr Fíu Sól, Orðin mín og Gordjöss.

Viðburðurinn bar yfirskriftina Leikur að orðum og er hluti af verkefninu Söngvavor sem teygir anga sína um allt land.

„Það er dýrmætt fyrir okkur að hafa fengið að taka á móti þessu verkefni sem á sér langa sögu í Reykjavík. Það er mikill lærdómur fólginn í því fyrir börnin að læra lögin, vinna með textana og síðast en ekki síst koma fram á tónleikum í menningarmiðstöðinni okkar. Ég vona að þetta verkefni sé komið til að vera.“ sagði Elsa Guðný Björgvinsdóttir verkefnastjóri menningarmála þegar hún var spurð út í mikilvægi þess að taka þátt í svona verkefni.

Kynnir og kórstjóri á tónleikunum var Karitas Harpa Davíðsdóttir og náði hún vel til barnanna. Útsetningar voru í höndum Haraldar Vignis Sveinbjörnssonar. Tónlistarsmiðstöð Austurlands leiddi verkefnið í Múlaþingi og Fjarðabyggð.

Börnin sem og starfsfólk leikskólanna eiga mikið lof skilið fyrir þá vinnu sem býr að baki svona tónleikum. 

,,Þau hafa greinilega verið að æfa mikið undandfarið og spenningurinn var orðinn mikill. Mitt barn hafði gaman af undirbúningnum og var í sjöunda himni að tónleikum loknum." sagði ein móðir eftir þessa frábæru tónleika. 

Mynd: Heiða Ingimarsdóttir
Mynd: Heiða Ingimarsdóttir
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd