Fara í efni

Kubbur tekinn við sem rekstraraðili í úrgangsmálum

13.12.2024 Fréttir

Kubbur hefur formlega tekið við meðhöndlun úrgangs í Múlaþingi sem var áður í höndum Íslenska Gámafélagsins. Á sama tíma og Kubbur er boðinn velkominn til starfa er Íslenska gámafélaginu þakkað fyrir gott samstarf undanfarin ár.

Samningur við Kubb var undirritaður þann 6. desember til næstu fjögurra ára í kjölfar útboðs. Samningurinn nær til sorphirðu við heimili, reksturs söfnunar- og grenndarstöðva á Egilsstöðum og Seyðisfirði ásamt þjónustu við söfnunarstöðina á Djúpavogi.

Samningurinn var undirritaður rúmum mánuði seinna en gert var ráð fyrir í útboði vegna sjálfkrafa samningsstöðvunar í kjölfar kæru. Samningsstöðvuninni hefur nú verið aflétt en í millitíðinni voru gerðir skammtímasamningar og vonast til að sorphirða samkvæmt losunaráætlun héldist. Það gekk því miður ekki eftir og hefur sorphirða í dreifbýli sveitarfélagsins dregist verulega. Múlaþing biðst innilegrar afsökunar á þeirri töf sem hefur orðið á sorphirðu en allt kapp er lagt á að koma henni í rétt horf. Ekki er hægt að reiða sig á gildandi sorphirðudagatöl í dreifbýli en unnið er að gerð nýrra dagatala fyrir árið 2025 og verða þau birt á næstu dögum.

Staðan í sorphirðu

Losun á blönduðum úrgangi og matarleifum í dreifbýli á Héraði hefur gengið vel undanfarna daga og ætti að ljúka í dag, föstudag, þegar farið verður í Hróarstungu og Jökulsárhlíð. Í kjölfarið verður farið í losun á pappír og plasti og er vonast til að sú losun gangi vel.

Á mánudaginn verða blandaður úrgangur og matarleifar hirt á Djúpavogi og nágrenni.

Sorphirða á Egilsstöðum, Fellabæ og Seyðisfirði hefur almennt gengið nokkuð vel og haldist nærri áætlun.

Á þeim stöðum þar sem ílát eru orðin yfirfull er vakin athygli á að íbúar geta losað sig við pappa og plast á söfnunarstöðvum sveitarfélagsins án endurgjalds á opnunartíma þeirra. Íbúar eru hvattir til að nýta sér það á meðan sorphirðu er ábótavant. Þá er rétt að vekja athygli á því að opin brennsla úrgangs er óheimil sem og urðun úrgangs utan viðurkenndra urðunarstaða.

Við yfirtöku jafn umfangsmikilla verkefna sem þessa má búast við því að einhver mistök eigi sér stað við sorphirðu á meðan starfsmenn læra á aðstæður á hverjum stað. Til dæmis getur komið fyrir að tæming á tunnum við einstaka heimili gleymist. Íbúar eru beðnir um að láta sveitarfélagið vita af slíku með því að senda tölvupóst á umhverfisfulltrui@mulathing.is eða með því að hringja í síma
4 700 700.

Af hverju er sorphirða boðin út?

Um innkaup opinberra aðila gilda lög um opinber innkaup nr. 120/2016. Þar segir meðal annars að öll innkaup opinberra aðila á vörum, þjónustu og verkum yfir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum skulu boðin út. Víðtæk þjónusta vegna meðhöndlunar úrgangs er kostnaðarsöm og fer yfir viðmiðunarfjárhæðir hjá flestum sveitarfélögum. Þeim ber því lagaleg skylda til að bjóða þjónustuna út.

Um Kubb ehf.

Kubbur er endurvinnslufyrirtæki sem hóf starfsemi árið 2011 og starfar í tíu öðrum sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Stefna fyrirtækisins er að íbúar þeirra sveitarfélaga sem það þjónustar skari fram úr í umhverfismálum á landsvísu en það fellur vel að markmiðum Múlaþings.

Til gamans má geta að Kubbur hefur hlotið viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki árlega frá árinu 2019.

Breytingar í úrgangsmálum framundan

Með nýjum samningi í úrgangsmálum verða nokkrar breytingar innleiddar á nýju ári sem verða kynntar betur síðar. Sem dæmi má nefna að klippikort á söfnunarstöðvar verða afnumin en þess í stað verður tekið upp greiðslukerfi með greiðslukorti og posa sem allir geta nýtt sér.

Eigendur keyptra klippikorta geta skilað þeim inn til sveitarfélagsins og fengið endurgreitt í samræmi við notkun. Keypt klippikort eru skráð á kaupendur og fá þeir endurgreiðsluna til sín.

Breytingarnar miða almennt að því að auka sveigjanleika fyrir íbúa við sorphirðu og taka skref í átt að Borgað þegar hent er kerfi í úrgangsmálum sveitarfélagsins. Slíkt kerfi virkar þannig að notendur borga mismunandi mikið fyrir hvern úrgangsflokk og borga minna ef þeir henda minna. Kerfin eru byggð upp í samræmi við mengunarbótaregluna en inntak hennar er að sá borgi sem mengar.

Kubbur tekinn við sem rekstraraðili í úrgangsmálum
Getum við bætt efni þessarar síðu?