Leikskólinn Sólvellir hélt upp á 50 ára starfsafmæli fimmtudaginn 17. október. Haldið var opið hús og var fjölskyldumeðlimum barnanna og öðrum bæjarbúum boðið í heimsókn. Á boðstólum var afmæliskaka, marengs, muffins, brauð og salat og var gestum boðið að renna niður kræsingunum með kaffi og djús.
,,Það mættu í kringum um 100 manns allt í allt sem var algjörlega frammúr öllum vonum og við vorum svo einstaklega glaðar með að „kempurnar“ hafi komið og fagnað með okkur, stórkostlegar konur sem unnu hérna í fleiri, fleiri ár og sumar jafnvel frá stofnun leikskólans." Sagði Urður Ómarsdóttir aðstoðarleikskólastjóri um hátíðarhöldin.
Börnin voru búin að gera afmæliskórónur sem þau voru með við tilefnið, þau bjuggu einnig til sameiginlegt listaverk handa skólanum og svo sungu þau að sjálfsögðu afmælissönginn fyrir leikskólann. Farið var í gegnum albúm og fleiri minningar, fjöldin allur af myndum var einnig hengdur upp og hafður til sýnis. Svo gerðu grunnskólabörnin mjög skemmtilegt verkefni þar sem þau útbjuggu afmæliskort fyrir leikskólann með mynd af sér og kveðju á bakvið sem hengd voru upp.
Dagurinn var því vel heppnaður og er starfsfólk þakklátt fyrir velvildina og mætinguna sem einkenndi daginn.