HEF veitur hafa tekið við af RARIK og sér fyrirtækið nú um rekstur fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði frá og með 1. janúar 2025. Yfirfærslan markar tímamót í sögu veitunnar og tryggir áframhaldandi þjónustu hennar við íbúa og fyrirtæki í bæjarfélaginu með stöðugum og öruggum orkuinnviðum.
Fjarvarmaveitan á Seyðisfirði hefur frá árinu 1980 verið hluti af innviðum bæjarins. RARIK hefur séð um heildarrekstur veitunnar frá 1992, en í ljósi breyttra aðstæðna og rekstraráskorana hefur fyrirtækið unnið að því að finna framtíðarlausn fyrir reksturinn. Með nýlegu samkomulagi milli RARIK og HEF veitna, sem undirritað var í dag, hefur verið ákveðið að HEF veitur muni taka við rekstrinum og tryggja áframhaldandi þjónustu.
„Það er gleðilegt að við séum að skrifa undir þennan samning hér í dag og reka þannig endahnútinn á nokkuð langt ferli og eyða um leið allri óvissu með framtíðarrekstur fjarvarmaveitunnar hér á Seyðisfirði“ sagði Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitastjóri Múlaþings við undirritunina.
Tryggð orka og betri rekstrargrundvöllur
RARIK tókst nýlega að tryggja fjarvarmaveitunni raforkusamning til fjögurra ára með forgangsorku á hagstæðu verði. Þetta kemur að mestu leyti í veg fyrir að grípa þurfi til olíukyndingar með tilheyrandi kostnaði og kolefnislosun.
„Samtalið við sveitarfélagið um rekstur veitunnar hefur staðið síðan 2017 en lýkur farsællega núna. Tímapunkturinn er góður, ástand veitukerfisins hefur batnað með góðu viðhaldi undanfarin ár og töp eða leki úr kerfinu er lítill. Samningurinn um kaup á forgangsorku tryggir grundvöll og fyrirsjáanleika í rekstri veitunnar sem er einnig mikilvæg breyting. Síðast en ekki síst er HEF, í eigu sveitarfélagsins, sérhæft fyrirtæki í rekstri hitaveitu, sem eðlilegt er að taki nú við keflinu, enda sveitarfélagið leyfishafi fyrir rekstri hitaveitunnar.“ sagði Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK.
Hvað þýðir þetta fyrir viðskiptavini?
Allir viðskiptavinir fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði fá nú þjónustu frá HEF veitum í stað RARIK. Síðasti reikningur frá RARIK vegna notkunar til 31. desember 2024 var sendur út í janúar en framvegis munu HEF veitur annast alla reikninga og þjónustu við viðskiptavini.
RARIK mun aðstoða við að tryggja að yfirfærslan til HEF gangi snurðulaust fyrir sig og HEF veitur munu leggja áherslu á stöðugleika í þjónustu. Viðskiptavinir veitunnar hafa þegar verið upplýstir um þessar breytingar.
Framtíðarsýn fyrir fjarvarmaveituna
HEF veitur og Múlaþing munu í samstarfi kanna áframhaldandi þróun veitunnar og möguleika á frekari úrbótum. Með nýjustu tæknilausnum og fjárfestingum í orkuinnviðum verður unnið að því að tryggja hagkvæma og umhverfisvæna húshitun fyrir Seyðfirðinga til framtíðar.
„HEF stefnir á að bora vatnsleitarholu í Seyðisfirði til að kanna möguleika á nýtingu volgs vatns á miðlæga varmadælu, ásamt því að móta áætlun um viðbætur og endurnýjun dreifikerfisins. Mikilvægur þáttur í því að auka hagkvæmni veitunnar er að tengja sem flest þeirra húsa í bænum sem ekki eru þegar tengd.“ sagði Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna.