Fara í efni

Gamla ríkið á Seyðisfirði. Sala fasteignar og samstarf um endurbyggingu

11.12.2024 Fréttir

Sveitarfélagið Múlaþing auglýsir eftir áhugasömum aðila til samstarfs um uppbyggingu Gamla ríkisins að Hafnargötu 11 á Seyðisfirði. Samstarfið hvílir á því að Múlaþing mun selja fasteignina með skilmálum um endurbyggingu hússins á nýjum stað innan lóðarinnar og tiltekinni fjárhagslegri meðgjöf, bundinni við framvindu framkvæmda.

Húseignin Hafnargata 11 verður seld í núverandi ástandi ásamt lóðarréttindum. Kaupandi mun njóta greiðsla fyrir færslu og endurgerð hússins í samræmi fjármagn sem fjallað er um í samningi Seyðisfjarðarkaupstaðar, Ríkissjóðs og Minjaverndar hf. Greiðslur Múlaþings munu fara eftir framvindu framkvæmda samkvæmt nánari skilmálum sem verða hluti kaupsamnings. Múlaþing og Minjavernd hf. munu fara með eftirlit með framkvæmdum.

Við endurgerð hússins þarf að reisa nýjan kjallara norðaustan við núverandi staðsetningu innan lóðar að Hafnargötu 11. Taka þarf húsið niður og reisa á nýjum húsgrunni og kjallara í samræmi við kröfur samnings. Ytra byrði hússins og innréttingar í verslunarrými á fyrstu hæð njóta friðunar og skal kaupandi gera hvort tveggja upp í samráði við Minjavernd hf.

Vegna framkvæmdanna þarf að færa lagnir í jörðu, m.a. háspennulagnir, áður en verkið getur hafist. Færsla lagna þarf að vera í samráði við veitufyrirtæki en er á kostnað kaupanda.

Gert er ráð fyrir að endurbótum verði að fullu lokið innan 3 ára frá undirritun kaupsamnings.

Val tilboða og kröfur til bjóðanda.

Bjóðandi skal hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa undir verkefninu, en krafist verður gagna um tiltekið eigið fé, sbr. tilboðsblað.

Þeir bjóðendur sem eftir opnun og yfirferð tilboða koma til álita sem viðsemjendur skulu, sé þess óskað, láta í té innan viku eftirtaldar upplýsingar.

  • Ársreikninga síðustu tveggja ára, sem sýna jákvætt eigið fé.
  • Staðfestingu frá viðkomandi yfirvöldum/lífeyrisjóð um að bjóðandi sé ekki í vanskilum.

Að öllu jöfnu er ekki gengið til samninga við bjóðendur ef ársreikningar þeirra sýna neikvæða eiginfjárstöðu. Múlaþingi er þó heimilt að gera undantekningu á þessu, enda liggi fyrir við gerð kaupsamnings staðfesting þess í formi árshlutareiknings eða yfirlýsingu löggilts endurskoðanda byggðri á upplýsingum um efnahag bjóðanda, að eigið fé bjóðandans sé jákvætt.

Áskilinn er réttur til að hafna tilboði ef viðskiptasaga bjóðanda þykir vafasöm.

Ef könnun á viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda bjóðanda leiðir í ljós nýlegt greiðslu- eða gjaldþrot eða sambærileg atvik er varða bjóðanda, stjórnendur eða eigendur hans, áskilur Múlaþing sér rétt til að hafna tilboði hans, enda eigi í hlut öldungis sams konar rekstrareining, með sömu eða nær sömu eigendur (eða skyldmenni eða tengdafólk fyrri eigenda), í sömu eða nær sömu atvinnustarfsemi, á sama markaði en með nýja kennitölu.

Bjóðandi skal búa yfir faglegri reynslu af sambærilegum verkefnum.

Við mat Múlaþings á reynslu bjóðanda samkvæmt þessu ákvæði er Múlaþingi heimilt að taka tillit til reynslu eigenda, stjórnenda, lykilstarfsmanna, undirverktaka og sérstakra ráðgjafa bjóðanda af verklegum framkvæmdum og leggja slíka reynslu að jöfnu við reynslu bjóðandans sjálfs, þótt reynsla viðkomandi aðila hafi áunnist í öðru fyrirtæki en hjá bjóðanda.

Múlaþing hyggst meta hagstæðasta tilboð út frá tilboðsverði og að teknu tilliti þess að bjóðandi uppfylli kröfur sem gerðar eru til bjóðanda.

Múlaþing áskilur sér rétt til að taka eða hafna hvaða tilboði sem er.

Nánari upplýsingar og skil á tilboðum

Gögn sem tilboð skulu byggja á eru eftirfarandi:

  • Lýsing fasteignarinnar Hafnargötu 11, ásamt fleiri gögnum um eignina.
  • Drög að kaupsamningi og sérstökum samningsskilmálum kaupsamnings, m.a. varðandi kröfur um endurbyggingu og greiðslur í samræmi við verkframvindu.
  • Tilboðsblað

Gögnin fást afhent rafrænt með því að senda á utboð@mulathing.is og fyrirspurnum verður svarað í gegnum sama netfang.

Boðið verður upp á skoðunarferð um fasteignina 8. janúar 2025 kl. 13.00 og eru áhugasamir beðnir um að skrá sig til þátttöku á netfanginu utbod@mulathing.is eða í síma 4700700.

Tilboðum skal skila á tilboðsblaði ásamt fylgiskjölum í lokuðu umslagi á skrifstofu Múlaþings, Lyngási 12, 700 Egilsstöðum eða Hafnargötu 44, 710 Seyðisfirði, merkt ,,Tilboð Gamla ríkið“ ásamt nafni bjóðanda. Skila skal tilboðum fyrir kl. 12:00, þann 22. janúar 2025.

Opnun tilboða fer fram kl. 14:00 þann 22. janúar að Hafnargötu 44, Seyðisfirði. Bjóðendum er heimilt að vera viðstaddir opnun tilboða.

Gamla ríkið á Seyðisfirði. Sala fasteignar og samstarf um endurbyggingu
Getum við bætt efni þessarar síðu?