Þann 12. febrúar síðastliðinn funduðu fulltrúar ÖBÍ með sveitarstjórnarfulltrúum og starfsfólki Múlaþings á skrifstofu sveitarfélagsins á Egilsstöðum. Á fundinum var meðal annars fjallað um aðgengi fatlaðs fólks og hvernig megi tryggja sem best aðgengi að og um byggingar sveitarfélagsins og hjá einkaaðilum. Þá var farið yfir mikilvægi þess að aðgengi á götum og göngustígum sé með eins góðum og fullnægjandi hætti og mögulegt er hverju sinni svo hægt sé að komast um óhindrað.
Að þeim fundi loknum funduðu fulltrúarnir með samráðshópi um málefni fatlaðs fólks í Múlaþingi og félagsþjónustunni. Á þeim fundi var rætt um hlutverk samráðshópa og notendaráða og það hvernig erindi hópar á öðrum svæðum hafa fengið til umfjöllunar. Fulltrúar ÖBÍ hvöttu meðlimi samráðshóps Múlaþings til að vekja athygli á sér til dæmis með því að óska eftir að koma á fund hjá nefndum sveitarfélagsins og fá frá þeim erindi til umsagnar.
Guðbjörg Gunnarsdóttir verkefnastjóri málefna fatlaðs fólks sagði eftir fundinn ,,Mikilvægi samráðs við þá sem eru að nota þjónustuna, að hlusta á þeirra sjónarmið og skapa skilyrði til virkar þátttöku í ákvörðunartöku er meðal annars dreginn upp á svona fundum.“