Um helgina verður hinn árlegi jólamarkaður Jólakattarins í Landsnethúsinu og Dekkjahöllinni frá klukkan 11:00-16:00. Vakin er athygli á því að fulltrúar framboða í sveitarstjórn Múlaþings og sveitarstjóri verði til skrafs og ráðagerða á sveitarstjórnarbekknum og eru íbúar sveitarfélagsins hvattir til að nýta sér tækifærið.
Líkt og áður mun kenna ýmissa grasa á markaðnum en þar verður hægt að festa kaup á jólatré, kaupa eitthvað gott í pakkann eða á jólaborðið, næla sér í fallegt handverk og margt fleira. Þessi hátíðlegi markaður er orðinn stór hluti aðdraganda jóla hjá mörgum og ekki að ástæðulausu enda gaman að skoða vörur úr nærumhverfinu um leið og kveðju er kastað á vini og vandamenn.
Hægt er að fá nánari upplýsingar um markaðinn og þá sem verða með bása á Facebooksíðu Jólakattarins.