Undanfarið hefur mikið verið um að vera á Djúpavogi. Metnaðarfull dagskrá var á svæðinu í tengslum við “Daga myrkurs”.
Ferðafélagið var með rökkurgöngu, sundpartý var hjá Neista, ljósmyndasýning opnuð á Teigarhorni, sviðaveisla á Bragðavöllum, töfratréð var á sínum stað í skógræktinni, barnabíó var í Löngubúð að ógleymdu Faðirvorahlaupinu sem fór fram í svartamyrkri eins og venja er.
Fyrir nokkrum dögum var svo haldinn íbúafundur á vegum heimastjórnar sem var vel sóttur. Á fundinum var farið yfir helstu verkefni sem eru í gangi á vegum sveitarfélagsins í gamla Djúpavogshreppi og áætlanir um framkvæmdir í framtíðinni. Fulltrúi samráðshóps um Cittaslow ávarpaði einnig fundinn og gerði grein fyrir starfi hópsins. Í lokin svaraði svo heimastjórn og fulltrúi sveitarstjóra spurningum.