Múlaþing hyggur á framkvæmdir við félagsheimilið Fjarðarborg á Borgarfirði eystri sem styrkja munu umgjörð byggingarinnar sem samfélagsmiðstöðvar. Henni er ætlað að efla atvinnu- og menntunarmöguleika á svæðinu og stuðla að markaðssetningu Borgarfjarðar sem áhugaverðum búsetukosti.
Gert er ráð fyrir að samfélagsmiðstöðin geti orðið vettvangur fyrir hverskonar menningarstarfsemi, störf án staðsetningar, þjónustu fyrir íbúa og jafnframt klaksetur góðra hugmynda. Lögð verður sérstök áhersla á að bæta aðgengi og aðstöðu fyrir fatlaða ásamt því að bæta orkunýtingu hússins.
Verkefnið hefur tekið breytingum á undirbúningstíma þess en upphaflega stóð aðeins til að breyta skipulagi efri hæðar og bæta aðgengi að öllu húsinu. Þegar farið var að kanna ástand byggingarinnar kom í ljós að viðhaldsþörfin var meiri en áður var talið og ekki réttlætanlegt að fjárfesta í svo umfangsmiklum breytingum án þess að bregðast við heildarástandi.
Ásta María Þorsteinsdóttir var fengin til að útfæra breytingarnar á húsinu og hefur sett fram meðfylgjandi tillögur með grunnmyndum og þrívíddar teikningum.
Íbúar eru hvattir til að kynna sér fyrirliggjandi hugmyndir og taka þátt í íbúafundi heimstjórnar Borgarfjarðar þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir verða kynntar, auk umfjöllunar um önnur málefni. Fundurinn verður haldinn í Fjarðarborg þriðjudaginn 31. ágúst kl. 17:00.