Hinn árlegi dýradagur var í Brúarási á dögunum en dagurinn er skemmtilegt uppbrot á hinu daglega skólastarfi skólans.
Á dýradeginum fá börn og kennarar að koma með húsdýrin sín með sér í skólann og fylgja dýrin börnunum í gegnum daginn. í lok dags er svo farið í sameigilegan göngutúr með þau dýr sem geta farið í göngutúr. Það kennir ýmissa grasa á þessum fjöruga degi og hafa til að mynda geitur, hestar, endur nagdýr og hænur mætt í skólann við þetta tækifæri. Þá mæta allajafna kettir og hundar í tugatali. Það fer þó ekki sögum af því hvort hestarnir séu miklir lestrarhestar eða hvort allt fari í hund og kött á meðan þessu stendur en miðað við hversu mikla lukku dagurinn vekur má gera ráð fyrir að allt fari fram með besta móti.
Samliða dýradeginum í grunnskólanum er svo bangsadagur í leikskólanum, þannig geta yngri börnin komið með taudýrin sín og þannig tekið þátt í deginum, eitthvað af rólegri dýrunum í grunnskólanum kíkja svo í heimsókn í leikskólann til krakkanna.
Markmið dýradagsins er að brjóta upp skóladaginn, gefa krökkunum kost á að kynnast mismunandi dýrum og sýna þeim virðingu.