Dagar myrkurs hefjast í dag og standa til 3. nóvember. Þetta er í 25. skipti sem hátíðin er haldin en hún fer fram um allt Austurland og markmið hennar er fyrst og fremst að hvetja til samveru íbúa.
Hátt í 40 viðburðir eru framundan á Dögum myrkurs í Múlaþingi en þar hafa stofnanir, félagasamtök og einstaklingar tekið höndum saman um að búa til fjölbreytta og viðamikla dagskrá. Hátíðin hefst með hinu svokallaða Faðirvorahlaupi á Djúpavogi og bangsagistingu á Bókasafni Héraðsbúa. Síðan rekur hver viðburðurinn annan alla vikuna. Söfn, bókasöfn og fleiri stofnanir standa fyrir fjölbreyttum smiðjum og viðburðum fyrir alla fjölskylduna, í félagsmiðstöðvum, leikskólum, skólum er ýmislegt gert til tilbreytingar, veitingastaðir bjóða upp á ýmis tilboð og uppákomur og íþróttafélög og önnur félagasamtök láta ekki sitt eftir liggja.
Austurbrú heldur utan um hátíðina og á heimasíðu þeirra má nálgast upplýsingar um flesta viðburði sem verða í boði á Austurlandi. Listinn er þó ekki tæmandi og eflaust á eitthvað eftir að bætast við. Einnig er hægt að fylgjast með á Facebook síðu viðburðarins.