Dagmar Ýr Stefánsdóttir hefur verið ráðin til að gegna stöðu sveitarstjóra Múlaþings. Hún tekur við starfinu af Birni Ingimarssyni um næstu áramót, en hann hefur gegnt starfi sveitarstjóra frá því í júlí 2010. Alls bárust níu umsóknir um stöðuna en fimm einstaklingar drógu umsókn sína til baka eftir að óskað var eftir nafnalista. Eftirfarandi sóttu um starf sveitarstjóra:
- Dagmar Ýr Stefánsdóttir - Framkvæmdastjóri
- Gunnlaugur Aðalbjarnarson – Framkvæmdastjóri fjármála
- Hilmar Kristinsson - Verkefnastjóri
- Hlynur Jónsson - Lögmaður
Dagmar er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Undanfarið rúmt ár hefur hún gegnt stöðu framkvæmdastjóra Austurbrúar, sem er verkefnastofa sem sinnir stoðþjónustu og vinnur að framgangi víðtækra og þverfaglegra verkefna í þágu Austurlands. Meðal málaflokka Austurbrúar eru byggðaþróun, atvinnumál, fræðslumál og rekstur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Áður starfaði Dagmar í tíu ár sem yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaráli, sem forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs hjá Háskólanum á Akureyri í fimm ár og þar áður fréttamaður á N4 sjónvarpi Norðurlands í eitt ár. Dagmar hefur auk þess setið í ýmsum stjórnum, s.s. í heimastjórn Fljótsdalshéraðs, í fagráði Seyðisfjarðarkaupstaðar, í stjórn Stapa lífeyrissjóðs og í fagráði Uppbyggingarsjóðs Austurlands.
Dagmar er gift Guðmundi Hinriki Gústavssyni, leiðtoga hjá Alcoa Fjarðaráli og eiga þau tvo syni. Eru þau búsett á Egilsstöðum.
„Ég er þakklát fyrir það traust sem sveitastjórnarfulltrúar Múlaþings sýna mér með því að bjóða mér að taka við þessu veigamikla starfi. Það er í stór spor að fylla enda hefur Björn Ingimarsson stýrt sveitarfélaginu af mikilli fagmennsku og alúð síðan það varð til. Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni sem bíða mín í nýju starfi og ekki síst að kynnast og starfa með öllu því góða og reynslumikla starfsfólki sem vinnur hjá Múlaþingi. Það verður erfitt að kveðja Austurbrú og samstarfsfólk mitt þar og þótt ég hafi aðeins staldrað stutt við hjá stofnuninni hef ég öðlast ómetanlega reynslu sem mun nýtast mér í nýju starfi.“