Fara í efni

Bryndís Fiona Ford hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Austurbrúar

05.12.2024 Fréttir

Bryndís Fiona Ford hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Austurbrúar. Hún tekur við stöðunni af Dagmar Ýr Stefánsdóttur sem tekur von bráðar við starfi sveitarstjóra Múlaþings.

Bryndís er fædd árið 1978 og er menntaður sjúkraþjálfari og kennari en hefur auk þess fjölbreytta reynslu úr heilbrigðis-, mennta- og ferðaþjónustugeiranum. Á síðustu árum hefur hún vakið athygli sem kraftmikill skólameistari Hallormsstaðaskóla en Bryndís hefur leitt umfangsmiklar breytingar á starfi skólans til dæmis, með þróun námsbrautarinnar skapandi sjálfbærni og við undirbúning á fyrsta staðbundna háskólanáminu á Austurlandi í samstarfi við Háskóla Íslands.

Bryndís er fædd og uppalin í Reykjavík en með sterka tengingu við landsbyggðina. Hún hefur búið og starfað á Austurlandi síðan árið 2000. Hún hefur starfað sem kennari, yfirmaður í hótelrekstri og sem skólameistari Hallormsstaðaskóla sem fyrr segir og segist verulega spennt að takast á við ný verkefni á vettvangi Austurbrúar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi:

„Það er spennandi tilhugsun að taka við nýjum verkefnum og fá tækifæri til að nýta reynsluna í þágu Austurlands. Ég hlakka til að vinna með því flotta teymi sem er þar nú þegar. Möguleikar landshlutans eru miklir og sóknarfærin mörg. Ég er sannfærð um að saman getum við unnið markvisst að því að gera landshlutann enn betri en hann er nú þegar, gert hann að stað þar sem fólk vill búa, starfa og njóta þess að upplifa,“ segir hún.

Bryndís hefur störf hjá Austurbrú á nýju ári.

Bryndís Fiona Ford hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Austurbrúar
Getum við bætt efni þessarar síðu?