Vegahúsið í samstarfi við Náttúruskólann og ítölsku ungmennasamtökin Il Cassetto dei Sogni stóð fyrir skemmstu fyrir Eramsus + ungmennaskiptaverkefninu Digital Empowerment in Nature. Verkefnið fór fram á Íslandi og á Ítalíu en meginmarkmið verkefnisins var að gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast og tengjast náttúrunni, efla sjálfstæði og hugrekki í útivist, læra um loftslagsbreytingar og ræða hvernig stafræn tækni getur nýst í náttúruvernd og loftslagslausnum. Þátttakendur fengu meðal annars handleiðslu í náttúruljósmyndum og sóttu námskeið í drónaflugi sem skilaði þeim alþjóðlegum drónaflugsréttindum, auk þess sem áhersla var lögð á að kynnast betur umhverfi og menningu beggja landa.
Tíu austfirsk ungmenni tóku þátt í verkefninu, þar af sjö úr Múlaþingi og þrjú búsett í Fjarðabyggð, ásamt álíka stórum hópi ítalskra ungmenna en Hildur Bergsdóttir verkefnastýra í Vegahúsinu og skólastýra Náttúruskólans fylgdi hópnum.
Hríðarél í ágúst
Verkefnið hófst með heimsókn ítalska hópsins til Íslands í lok ágúst. Þar tók íslenski hópurinn tók á móti þeim og saman héldu þeir út í austfirska náttúru. Þátttakendur lærðu að tjalda og lifa tjaldbúðarlífi, fengu að kynnast býflugnarækt og spreyta sig á klettasigi, línuvinnu, tálgun og rötun. Hópurinn dvaldi auk þess í Óbyggðasetrinu og kynnti sér sjálfbærni og nægjusemi genginna kynslóða, gekk upp með Jökulsá í Fljótsdal með myndavélarnar á lofti og naut náttúrufegurðar og óbyggðakyrrðar sem var Ítölunum ansi framandi. Ungmennin heimsóttu Laugarfell og Snæfellstofu og kynntu sér Vatnajökulsþjóðgarð og lífið innan hans. Rúsínan í pylsuendanum var svo dvöl í Snæfellsskála þar sem ösla þurfti skafla til að komast í hús, sem Hildur segir að meira að segja Íslendingunum hafi þótti nokkuð vel í lagt í lok ágúst.
Hildur segir að ,,náttúrutengsl, óvissuþol og ævintýraþrá Ítalanna hafi aukist til muna í ferðinni en hópurinn flaug til landsins yfir nýhafin eldsumbrot á Reykjanesi, upplifði hversu hratt veður getur breyst á Íslandi og að snjóstormur í ágúst sé bara verkefni til að leysa. Hópurinn endaði svo vikuna á að vera veðurtepptur á Egilsstöðum og þurfa að bruna keyrandi í myrkri og dansandi norðurljósum alla leið til Keflavíkur til að ná fluginu heim. Ítalski hópurinn fór sannarlega heim reynslunni ríkari og hafði á orði að ferðin hingað hefði verið falleg og fróðleg eldskírn í að lifa í andartakinu, vera í flæði og auðmjúk gagnvart því að við höfum ekki stjórn á náttúrunni heldur þurfum að virða hana og laga okkur að öllum hennar töfrum og tryllingi" segir Hildur.
Af kirkjuklukkum og hádegisblundum á Ítalíu
Leið íslenska ungmennahópsins lá svo út til Fanano á Norður Ítalíu nú um miðjan október. Þar dvaldi hópurinn í fallegu 2000 manna fjallaþorpi ásamt ítölskum vinum sínum í góðu yfirlæti í nunnuklaustri frá 14. öld. Hópurinn kynntist skógivöxnum fjallshlíðum og fallegu hæglætislífi, þar sem kirkjuklukkurnar ómuðu nær stöðugt og hádegisblundir eru teknar alvarlega. Hópurinn hélt þó einnig til fjalla nánar tiltekið á topp Monte Cimone. „Við keyrðum nokkurnveginn upp í Snæfellshæð og gengum svo síðasta spölinn upp á topp sem stendur í 2170 m en það var nokkur upplifun fyrir okkur að komast svo hátt nokkuð fyrirhafnarlítið og vappa að auki innan um gróður og blóm í hæð sem við tengjum fremur við hájökla. Þegar á tindinn var komið beið okkar þar bækistöð ítalska flughersins en þar eru einnig stundaðar mikilvægar veður-, mengunar- og loftslagsmælingar sem við fengum að kynnast.“
Veðrið var hópnum ekki hliðholt fremur en á Íslandi, en miklar rigningar með meðfylgjandi flóða- og skriðuhættu settu honum skorður varðandi frekari háfjallaferðir. Hildur segir að tíminn hafi þó verið vel nýttur: „Við tókum þátt í áhugaverðri og krefjandi vinnusmiðju um loftslagsmál, orsakir og afleiðingar, veltum upp leiðum og lausnum og hvaða þátt hugarfar og gildismat spilar í þessu samhengi, unnum með innra baráttuþrek og veltum upp í hvaða málaflokkum við viljum nýta það og hvernig.“ Þá fengu þátttakendur einnig tilsögn í drónaflugi enda geta slík tæki gefið dýrmætar upplýsingar við náttúruvöktun og nýst vel við leitir, björgun og fleira. Hópurinn gerði sér lítið fyrir og lauk alþjóðlegum drónaflugsréttindum með þar til gerðu prófi.
Þetta er umfangsmesta verkefni sem Vegahúsið og Náttúruskólinn hafa tekið þátt í til þessa og Hildur segir að þau komi öll heim reynslunni ríkari: „Ungmennin okkar stóðu sig ljómandi vel í einu og komu heim með örlítið víðari sjóndeildarhring og vasa fulla af seiglu, þekkingu, nýrri vináttu og auðvitað alþjóðlegum drónaflugsréttindum.“