Ársreikningur Múlaþings fyrir árið 2024 lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn Múlaþings þann 12. mars 2025 samþykktur og áritaður af byggðaráði og sveitarstjóra. Samkvæmt sveitarstjórnalögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og er áætlað að seinni umræða fari fram miðvikudaginn 9. apríl 2025.
Helstu niðurstöður
- Rekstrarniðurstaða A og B hluta samstæðureiknings Múlaþings var jákvæð um 921 millj. kr. á árinu 2024 þar af var afkoma A hluta jákvæð um 271 millj. kr.
- Framlegð/EBITDA, rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnslið, samstæðu A og B hluta nam 1.679 millj. kr. eða um 15,7% í hlutfalli af rekstartekjum. Til samanburðar nam EBITDA í samstæðureikningi 1.392 millj. kr. á árinu 2023 eða 14,5%.
- Framlegð/EBITDA A hluta nam 657 millj. kr. á árinu 2024 eða um 7,3% í hlutfalli af rekstartekjum. Til samanburðar nam EBITDA A hluta 449 millj. kr. á árinu 2023 eða 5,5%.
- Hrein fjármagnsgjöld námu 735 millj. kr. í samstæðu A og B hluta en námu 897 millj. á árinu 2023. Hrein fjármagnsgjöld A hluta námu 598 millj. kr. samanborið við729 millj. á árinu 2023.
- Áhrif niðurlagningar og slita Skólaskrifstofu Austurlands námu 510 millj. kr. á árinu 2024 og eru færð sem óvenjulegir liðir.
- Veltufé frá rekstri nam 1.975 millj. kr. á árinu 2024 í samstæðu A- og B hluta eða 18,4% í hlutfalli af rekstartekjum. Til samanburðar nam veltufé frá rekstri A og B hluta á árinu 2023 1.323 millj. kr.
- Veltufé frá rekstri í A hluta nam 1.099 millj. kr. eða 12,1% í hlutfalli af rekstartekjum. Til samanburðar nam veltufé frá rekstri A hluta 483 millj. kr. á árinu 2023.
- Eigið fé var jákvætt í árslok 2024 um 4.159 millj. kr. í samstæðu A- og B hluta að teknu tilliti til hlutdeildar minnihluta. Eigið fé A hluta var jákvætt um 1.011 millj. kr. í árslok 2024.
- Skuldir og skuldbindingar samstæðu A- og B hluta námu í árslok 2024 um 13.375 millj. kr. og lækkuðu um 291 millj. kr. á árinu. Skuldaviðmið skv. reglugerð um fjárhagsleg viðmið fyrir A og B hluta nam 91% í árslok 2024 samanborið við 105% í árslok 2023.
Nánari upplýsingar veita Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri og Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri.