Yngstu nemendur grunnskóla Múlaþings eiga von á góðum gestum dagana 2. og 3. desember en þá ætlar sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri að leggja land undir fót og heimsækja alla grunnskóla sveitarfélagsins með leikverkið Ævintýri á aðventu.
Um er að ræða gleðilegt jólasöguverk þar sem efniviðurinn er sóttur í hinn undarlega íslenska jólasöguarf. Við sögu koma meðal annars Grýla, jólakötturinn, Solla á bláum kjól og Gunna á nýjum skóm. Höfundur verksins er Þórunn Guðmundsdóttir. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir, sem einnig hannar leikmynd en búningar eru úr smiðju Rósu Ásgeirsdóttur. Flytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og söngkonurnar Jóna G. Kolbrúnardóttir og Erla Dóra Vogler.
Verkefnið er meðal annars styrkt af Múlaþingi og er hluti af BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi.