Fara í efni

Ævintýragjarnir náttúruunnendur á aldrinum 14-16 ára athugið

13.11.2024 Fréttir

Náttúruskólinn í samstarfi við katalónísku ungmennasamtökin ARAM Asociación por la Resiliencia del Alto Mijares óskar eftir umsóknum til þátttöku í Eramsus + ungmennaskiptaverkefni sem fram fer í annarsvegar í óbyggðum Austurlands og hinsvegar í fjallaþorpinu Cirat í Katalóníu á Spáni.

Markmið verkefnisins er að efla náttúrutengsl og þekkingu á náttúrunni, vinna með sjálfbærni og skoða gildismat og verklag genginna kynslóða og hvaða lærdóm við getum dregið af því sem nýtist okkur inn í daglegt líf samtímans og hjálpað okkur að lifa í fallegri samhljómi við náttúruna, kynnast sögu og menningu í hvoru landi fyrir sig, efla sjálfstraust, hugrekki og sjálfstæði.

Verkefnið fer fram á ensku. Farið verður til Katalóníu og dvalið í fjallaþorpinu Cirat dagana 23.-29. apríl þar sem unnið verður með hópi ungmenna af svæðinu.
Sami hópur sækir Ísland heim 8.-12. júní en þá verður meðal annars dvalið í tjöldum í Hallormsstaðaskógi, Óbyggðasetrið heimsótt, fossagönguleiðin gengin um 16 km ægifagra gönguleið frá botni Fljótsdals upp með Jökulsá í Fljótsdal og upp í Laugarfell.

Íslenski hópurinn mun hittast og vinna að ýmiskonar undirbúningi frá og með janúar og fram á vor.

Áhugasöm ungmenni af öllu Austurlandi eru hvött til að sækja um en valið verður úr umsóknum, því aðeins komast 10 ungmenni að í verkefnið.

Umsókn fer fram í videókynningu þar sem eftirfarandi þættir þurfa að koma fram:

  • Nafn
  • Aldur
  • Búseta
  • Stutt kynning á viðkomandi
  • Hvers vegna þetta viðfangsefni vekur áhuga og reynsla af verkefnum því tengdu, til dæmis útivist
  • Hvaða styrkleika umsækjandi hefur til að bera sem nýtast vel inn í ævintýri sem þetta
  • Annað sem umsækjandi vill koma á framfæri.

Umsóknarvideóum skal skila í tölvupósti fyrir 18. nóvember á netfangið natturuskolinn@gmail.com. Í þeim tölvupósti þarf einnig að koma fram nöfn og netföng foreldra umsækenda. Foreldrar þurfa að vera samþykkir umsókn og vera tilbúin að leggja verkefninu lið, einkum í kringum fjallaferðina hér á landi í júní.
Foreldrar umsækenda sem valdir verða til þátttöku verða boðaðir á upplýsingafund í framhaldinu.

Ævintýragjarnir náttúruunnendur á aldrinum 14-16 ára athugið
Getum við bætt efni þessarar síðu?