Fara í efni

Fjölskylduráð Múlaþings

10. fundur 19. janúar 2021 kl. 12:30 - 15:15 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Elvar Snær Kristjánsson formaður
  • Guðný Margrét Hjaltadóttir varaformaður
  • Alda Ósk Harðardóttir aðalmaður
  • Guðmundur Björnsson Hafþórsson aðalmaður
  • Jódís Skúladóttir aðalmaður
  • Kristjana Sigurðardóttir aðalmaður
  • Ragnhildur Billa Árnadóttir aðalmaður
  • Þórlaug Alda Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri
Áheyrnarfulltrúar leikskóla, Guðrún Sigríður Sigurðardóttir og Reynir Hólm tóku þátt í fundinum undir liðum 1-4. Áheyrnarfulltrúar grunnskóla, Þorbjörg Sandholt og Hrefna Hlín Sigurðardóttir tóku þátt í fundinum undir liðum 3-7. Þórunn Óladóttir, skólastjóri Seyðisfjarðarskóla sat fundinn undir liðum 2, 5 og 6.

1.Sumarskipulag leikskóla Múlaþings

Málsnúmer 202101120Vakta málsnúmer

Guðrún Sigríður Sigurðardóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, kynnti erindið sem varðar skipulag leikskólastarfs í ljósi breytinga á kjarsamningum starfsfólks skólanna, ekki síst hvað varðar lengingu sumarorlofs og áhrif þess á sumarskipulag í skólunum.

Fjölskylduráð fer þess á leit að fá nánari greiningu á áhrifum þessa á skólastarfið með tillögu frá hverjum skóla um hvernig hægt sé að bregðast við og hugsanlegum kostnaðaráhrifum. Lögð er áhersla á að foreldrar taki málið einnig til umræðu á sameiginlegum vettvangi leikskólaforeldra í sveitarfélaginu.

Málið verði tekið til frekari afgreiðslu þegar niðurstöður liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Gjaldskrá leikskóladeildar Seyðisfjarðarskóla 2021-2023

Málsnúmer 202101113Vakta málsnúmer

Í samræmi við fyrri bókun fjölskylduráðs um afslátt af leikskólagjöldum á Seyðisfirði árin 2021-2023 leggur fjölskylduráð til að almennt tímagjald á árinu 2021 verði kr. 3.526 og tímagjald fyrir forgangshópa kr. 2.465 frá og með 1. febrúar nk. Afslátturinn lækki síðan hlutfallslega að teknu tilliti til ákvörðunar um þróun gjalda á Múlaþingi þannig að tímagjald verði það sama á Seyðisfirði og í leikskólunum Tjarnarskógi, Hádegishöfða og Bjarkatúns árið 2024.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Áskorun varðandi framboð grænkerafæðis í skólum

Málsnúmer 202101005Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Samtökum grænkera á Íslandi varðandi þátttöku skóla sveitarfélagsins í verkefninu Veganúar og ábending um framboð til skólanemenda á grænkerafæði.

Fjölskylduráð þakkar fyrir áminningu um mikilvægi umhverfisvitundar og heilsusamlegs lífernis í skólum. Skólar Múlaþings taka almennt ekki þátt í Veganúar en fylgja lýðheilsuviðmiðum og/eða heilsueflandi viðmiðum þegar kemur að matarframboði. Þá er grænmeti ýmist í boði á hlaðborðum eða borið fram með máltíðum í öllum skólum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Sérfræðiþjónusta skóla

Málsnúmer 202012040Vakta málsnúmer

Fyrir liggur niðurstaða starfshóps sem skipaður var á fundi fjölskylduráðs í desember sl.

Fjölskylduráð leggur áherslu á að nú þegar verði gengið frá samkomulagi við þau sveitarfélög sem standa að byggðasamlaginu um Skólaskrifstofu Austurlands og að því samstarfi sem varðar sérfræðiþjónustu skóla verði slitið.

Mikilvægt er að sá mannauður sem fyrir er tapist ekki í þessum skipulagsbreytingum og því nauðsynlegt að haft verði samráð við starfsfólk Skólaskrifstofunnar í þessu ferli. Fjölskylduráð leggur áherslu á að haft verði markvisst samráð við skólastjórnendur bæði í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins varðandi framtíðarskipan skólaþjónustunnar til að tryggja að skólaþjónustan skili sem best því breiða hlutverki sem henni eru ætluð skv. lögum, reglum og þörfum skólanna.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Skólastarf í Seyðisfjarðarskóla

Málsnúmer 202101109Vakta málsnúmer

Þórunn Óladóttir fór yfir stöðu mála í Seyðisfjarðarskóla í ljósi þeirra hamfara sem gengu yfir samfélagið þar í desember sl.

Austurlandsteymið hefur verið skólanum innan handar með ráðgjöf til starfsfólks og barna. Heimastjórn Seyðisfjarðar bókaði ósk um að starfsfólk ætti kost á námskeiði um viðbrögð barna við áföllum og fram kom að skólinn myndi taka slíku tilboði fagnandi. Jafnframt er mikilvægt að hugað sé að velferð starfsfólks í þeirri stöðu sem uppi er í samfélaginu. Fjölskylduráð felur fræðslustjóra að finna leið í samstarfi við skólastjóra til að bregðast við þessu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Skólastofur við Seyðisfjarðarskóla

Málsnúmer 202011088Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

7.Upplýsingatækni í skólastarfi

Málsnúmer 202101123Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð leggur áherslu á að þegar verði ráðist í markvissa úttekt á tæknimálum í grunnskólum sveitarfélagsins og að samhliða verði unnin heildstæð áætlun um uppbyggingu á búnaði í skólunum.

Upplýsingatækni gegnir lykilhlutverki í nútíma skólastarfi og í vaxandi mæli er námsefni nú aðeins aðgengilegt í rafræmu formi. Einnig má benda á stöðu mála þegar forsendur breytast eins og gerðist í báðum bylgjum covid faraldursins þegar mikið reyndi á kunnáttu og færni nemenda og kennara á nýtingu tækninnar og aðgengi að tækjum svo hægt væri að halda uppi fjarkennslu fyrir þá sem ekki gátu sótt skólann sinn. Jafnframt má benda á að öll próf frá opinberum aðilum eru nú tekin með rafrænum hætti og þá þarf tæknin að vera aðgengileg og í fullri virkni.

Fram kom í máli áheyrnarfulltrúa skólanna að mikið álag er á tæknideild sveitarfélagsins og mikilvægt er að hún verði styrkt.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


8.Skýrsla fræðslustjóra

Málsnúmer 202012045Vakta málsnúmer

Til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:15.

Getum við bætt efni þessarar síðu?