Fara í efni

Fjölskylduráð Múlaþings

47. fundur 16. ágúst 2022 kl. 12:30 - 14:15 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Sigurður Gunnarsson formaður
  • Björg Eyþórsdóttir varaformaður
  • Guðmundur Björnsson Hafþórsson aðalmaður
  • Guðný Lára Guðrúnardóttir aðalmaður
  • Eyþór Stefánsson aðalmaður
  • Jóhann Hjalti Þorsteinsson aðalmaður
  • Þórlaug Alda Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Júlía Sæmundsdóttir félagsmálastjóri
  • Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir íþrótta- og æskulýðsstjóri
Fundargerð ritaði: Júlía Sæmundsdóttir félagsmálastjóri
Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Kjartan Róbertsson komu fyrir fjölskylduráð undir 3ja lið.

1.Skíðasvæðið í Stafdal - rekstur

Málsnúmer 202109105Vakta málsnúmer

Á 44. fundi fjölskylduráðs Múlaþings var eftirfarandi bókað:

"Fjölskylduráð samþykkir að kanna möguleikann á því að farið verði í útboð vegna reksturs skíðasvæðisins í Stafdal, en fyrir liggur að Skíðafélagið í Stafdal hyggst ekki reka svæðið áfram næsta vetur. Er starfsmanni ráðsins falið að taka saman þau gögn sem þarf til að hægt sé að taka frekari afstöðu til rekstrarmöguleika svæðisins."

Eftir yfirferð á rekstri annarra skíðasvæða af svipaðri stærð er ljóst að ekki er fýsilegt að fara í útboð á rekstri Skíðasvæðisins í Stafdal.

Er íþrótta- og æskulýðsstjóra falið að ræða við Skíðafélagið í Stafdal um það hvernig best er staðið að rekstri svæðisins í vetur og hvernig samstarfi félagsins og Múlaþings getur verið háttað og leggja fram upplýsingar á næsta fundi ráðsins.

Samþykkt samhljóða.

2.Lög og reglur sem gilda um starfsemi á fjölskyldusviði

Málsnúmer 202010486Vakta málsnúmer

Farið yfir málefni félagsþjónustu þar sem félagsmálastjóri var fjarverandi á fyrsta fundi ráðsins.

3.Erindi til fjölskylduráðs og heimastjórnar Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 202207043Vakta málsnúmer

Hjónin Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Kjartan Róbertsson komu fyrir fjölskylduráð undir þessum lið til þess að fylgja erindi sínu eftir um frístundaþjónustu fyrir börn með fötlun. Fjölskylduráð þakkar þeim erindi sitt. Fjölskylduráð samþykkir að fela sviðsstjórum fjölskyldusviðs að vinna að undirbúningi frístundarþjónustu fyrir börn með fötlun samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir á komandi skólaári og sumri, jafnframt því að taka saman gögn og hugmyndir varðandi framtíðar fyrirkomulag í frístundaþjónustu við börn með fötlun. Samantekt sviðsstjóra verður lögð fyrir ráðið.

Samþykkt samhljóða.

4.Leiðbeiningar til sveitarstjórna um skipan barnaverndarnefnda

Málsnúmer 202208062Vakta málsnúmer

Hinn 29. apríl 2022 samþykkti Alþingi frumvarp mennta- og barnamálaráðherra sem felur í sér frestun niðurlagninga barnaverndarnefnda til 1. janúar 2023. Eftir sveitarstjórnarkosningar hinn 14. maí sl. þurfa sveitarstjórnir því að gæta þess að starfsemi barnaverndarnefndar viðkomandi sveitarfélags sé í samræmi við lög. Almenna reglan er að barnaverndarnefndir sem voru starfandi á síðasta kjörtímabili halda umboði sínu og starfi áfram til 1. janúar 2023. Ekki er gert ráð fyrir kosningu nýrrar barnaverndarnefndar þótt breytingar verði í sveitarstjórn, t.d. ef nýr meirihluti tekur við. Hins vegar geta sveitarfélög falið nýrri félagsmálanefnd tímabundin verkefni barnaverndarnefnda til 1. janúar 2023. Ef þessi leið er farin eiga sömu reglur við um skipun félagsmálanefndar, sem jafnframt fer með verkefni barnaverndarnefndar, og við skipun tímabundinnar barnaverndarnefndar. Fjölskylduráð Múlaþings mun því starfa sem barnaverndarnefnd sveitarfélagsins allt til áramóta, er nýtt umdæmisráð barnaverndar tekur við, eins og tíðkast hefur hjá sveitarfélaginu fyrir gildistöku lagabreytinga á barnaverndarlögum nr. 80/2002. Sveitarstjórn tilkynnir Barna- og fjölskyldustofu um þessa skipan mála.
Félagsmálastjóri upplýsir ráðið um þróun mála við skipan nýrra umdæmisráða barnaverndar sem og barnaverndarumdæma.
Múlaþing hyggst standa að stofnun eigin barnaverndarumdæmis og umdæmisráðs barnaverndar í samvinnu við fleiri barnaverndarumdæmi. Fjölskylduráð veitir félagsmálastjóra fullt umboð til að vinna að framgangi þessara mála.
Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 14:15.

Getum við bætt efni þessarar síðu?