Meginhlutverk Hlymsdala er að bjóða upp á aðstöðu til að auka og viðhalda virkni og fyrirbyggja og rjúfa félagslega einangrun. Í Hlymsdölum er einnig starfrækt félagsstarf fyrir eldri borgara skv. lögum um málefni aldraðra auk þess að Félag eldri borgara hefur afnot af aðstöðunni fyrir ákveðna þætti í sinni starfsemi.
Hlymsdalir þjóna öllum íbúum sveitarfélagsins og er meginúrræði félagsþjónustunnar til að uppfylla ofangreint markmið og snertir alla þá sem ekki eru á vinnumarkaðinum, t.d. öryrkja, atvinnuleitendur, eldri borgara og heimavinnandi.
Húsnæðið er rekið af Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og getur nýst, án endurgjalds undir hvers kyns starfsemi á vegum Félagsþjónustunnar, t.d. ýmis konar fræðslu-, menningar- og samfélagslegra viðburða. Húsnæðið getur auk þess nýst án endurgjalds til viðburða sem tengjast félagsstarfi eldri borgara, þ.á.m. viðburði tengdum félagsmönnum í Félagi eldri borgara, enda sé sú nýting ekki í samkeppni við aðra starfsemi í sveitarfélaginu. Hér er t.d. átt við ef félagsmaður heldur uppá afmæli sitt. Ættingjar félagsmanna greiða skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
Félagsmálastjóra er heimilt að gera sérstaka samninga við félagasamtök á svæðinu sem vilja nota húsnæðið fast t.d. til fundahalda eða æfinga. Í slíkum tilfellum er gert ráð fyrir því að starfsemi samtakanna nýtist í þágu samfélagsins á Héraði.
Einnig getur húsnæðið nýst til ýmis konar fræðslu-, menningar- og samfélagslegra viðburða á vegum sveitarfélagsins samkvæmt gjaldskrá.
Ef viðburðir eru haldnir í hagnaðarskyni eða án tengsla við félagsstarf og samfélagsleg málefni, skulu afnot af húsinu einungis veitt gegn gjaldtöku.
Húsnæðið er að jafnaði ekki leigt út fyrr en eftir klukkan 17.00 á virkum dögum. Viðburðir sem auglýstir hafa verið í kynningarbæklingi um tómstundastarf í Hlymsdölum hafa forgang gagnvart annarri útleigu. Samkvæmt 18. gr. reglna um fjölbýlishús má ekki leigja húsnæðið eftir miðnætti, en þá skal einnig frágangi vera lokið.
Sala áfengis er ekki leyfð.
Leigutaki skrifar undir samning vegna útleigu á húsnæðinu.
Að jafnaði skal eldhús ekki leigt út til sölu matar á viðburðum í húsnæðinu. Kaffi fylgir ekki með salarleigu. Dúkar fylgja ekki með salarleigu. Ef leikin er tónlist á viðburðum er vakin athygli á að gera þarf sérstök skil á stefgjöldum sem ekki eru innifalin í leigu.
Gjaldskrá sveitarfélagsins um notkun fasteigna gildir fyrir útleigu á Hlymsdölum.
Samþykkt í félagsmálanefnd: 22.11.2010 / samþykktar breytingar 12. nóv. 2012 sem taka gildi þá þegar. Samþykktar breytingar í félagsmálanefnd 25.mars 2015, sem taka gildi 1. apríl 2015. Samþykktar breytingar í félagsmálanefnd 26.08.2019 sem taka gildi þá þegar.