Fara í efni

Reglur um sveigjanlegt upphaf grunnskólagöngu og brautskráningu úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið

Reglurnar á pdf formi

1. gr. Vinnulag þegar sótt er um flýtingu eða seinkun á upphafi grunnskólagöngu.

Foreldrar/forsjáraðilar sækja skriflega um flýtingu eða seinkun á upphafi grunnskólagöngu barns til skólastjóra grunnskóla í Múlaþingi. Sótt er um flýtingu eða seinkun á því almanaksári sem barnið verður 5 ára og eigi síðar en 15. febrúar á því ári sem grunnskólaganga á að hefjast. Skólastjóri sendir, í framhaldi, umsókn til skóla- og frístundaþjónustu og óskar eftir samráði við fræðslustjóra.

Skóla- og frístundaþjónusta óskar skriflega eftir umsögn leikskóla og almennu þroskamati frá sálfræðingi, innan tveggja vikna frá því að umsókn um flýtingu eða seinkun er undirrituð af forsjáraðilum.

Í umsögn leikskóla þarf að koma fram:

  1. Almenn umsögn um þroskastöðu barnsins, m.a. með vísan í niðurstöður Íslenska þroskalistans og Hljóm-2.
  2. Greinargerð um leikskólanám barnsins.
  3. Upplýsingar um félagslega stöðu barnsins.
  4. Upplýsingar um líkamlega heilsu og þroska.
  5. Mat á hvort staða barnsins í ofangreindum þáttum (a-d) sé á við ári eldri/yngri börn.
  6. Afstaða leikskóla til umsóknar foreldra/forsjáraðila?

Umsögn skóla- og frístundaþjónustu skal berast skólastjóra grunnskóla eigi síðar en átta vikum frá því að beiðni barst frá skólastjóra.

Skólastjóri grunnskóla, í samráði við fræðslustjóra, tekur ákvörðun um samþykki eða synjun umsóknar um flýtingu eða seinkun á upphafi grunnskólagöngu.

Hyggist skólastjóri grunnskóla synja umsókn um flýtingu/seinkun skal hann tilkynna foreldrum/forsjáraðilum barnsins um fyrirhugaða synjun, ásamt ítarlegum rökstuðningi. Gefa skal foreldrum tveggja vikna frest til að að tjá sig um fyrirhugaða synjun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

2. gr. Vinnulag þegar sótt er um flýtingu á grunnskólagöngu.

Komi fram ósk um flýtingu barns á grunnskólagöngu á öðrum aldursstigum þess skal stuðst við verklag
í 1. gr. eins og við á.

3. gr. Vinnulag þegar sótt er um brautskráningu úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið

Foreldrar/forsjáraðilar sækja skriflega um útskrift barns úr 9. bekk grunnskóla, áður en 10 ára grunnskólanámi er lokið, til skólastjóra. Sótt er um flýtingu, eigi síðar en 15. október á því skólaári sem nemandi er í 9. bekk. Skólastjóri sendir umsókn til skóla- og  frístundaþjónustu og óskar eftir samráði við fræðslustjóra.

Skólastjóri metur hvenær nemandi lýkur grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans. Nemanda ber að ljúka öllu skyldunámi samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla með framúrskarandi árangri áður en hann útskrifast þaðan, samanber eftirfarandi viðmið:

  1. Nemandi uppfylli viðmið með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár með framúrskarandi árangri.
  2. Nemandi hafi fengið náms- og starfsráðgjöf.
  3. Skólastjóri telji útskrift ráðlega.
  4. Nemandi hefur félagsþroska til að takast á við félagslegt umhverfi framhaldsskóla. 

Ákvörðun skólastjóra í þessu efni lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga. Foreldri getur kært synjun um útskrift úr grunnskóla samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr. grunnskólalaga og er foreldrum gefin tveggja vikna frestur til að tjá sig um fyrirhugaða synjun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

4. gr.

Reglur þessar eru settar með stoð í 15. og 32. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og öðlast þegar gildi.

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 11. desember 2024

Síðast uppfært 28. janúar 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd