Fara í efni

Reglur um starfskjör kjörinna fulltrúa hjá Múlaþingi

1. gr. Um starfskjör.

Reglur þessar byggja á 32. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og ákvæðum 25. gr. samþykktar um stjórn Múlaþings. Reglur þessar fjalla um þóknun fyrir störf sveitarstjórnarfólks og nær einnig til starfa þeirra fulltrúa sem skipaðir eru af sveitarstjórn í stjórnir, ráð og nefndir á vegum sveitar­félagsins.

Grunnur þóknana kjörinna fulltrúa er kr. 1.204.580, sem tekur mið af þingfararkaupi eins og það var í október árið 2016 og hækkar í samræmi við breytingar á kjarasamningi Félags opinberra starfs­manna á Austurlandi (FOSA) við Samband íslenskra sveitarfélaga til febrúar 2020. Grunnurinn tekur breytingum frá staðfestingu reglna þessara í samræmi við meðaltalsbreytingu á fyrr­nefndum kjara­samningi.

2. gr. Markmið.

Markmið með ákvörðun um starfskjör kjörinna fulltrúa er:

að kjörnir fulltrúar fái sanngjarna þóknun fyrir störf sín í þágu sveitarfélagsins,
að kjörin taki mið af landfræðilegri stærð sveitarfélagsins og stuðli að því að kjörnir fulltrúar búi við sams konar tækifæri til þátttöku í stjórn sveitarfélagsins,
að fulltrúar sveitarfélagsins njóti kjara sem eru sambærileg við það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði, hjá sambærilegum sveitarfélögum og hjá ríkinu,
að kjör fulltrúa séu gagnsæ og endurspegli störf þeirra og ábyrgð.

3. gr. Skilgreiningar.

Sveitarstjórnarfulltrúar í Múlaþingi eru 11 og kjörnir í almennum sveitarstjórnarkosningum. Nefndum sveitarfélagsins er skipt niður í eftirfarandi flokka:

  1. Sveitarstjórn, sem fundar að jafnaði mánaðarlega.
  2. Fastanefndir: byggðarráð, fjölskylduráð, umhverfis- og framkvæmdaráð, sem funda að jafnaði vikulega.
  3. Heimastjórnir, sem funda að jafnaði einu sinni til tvisvar í mánuði.
  4. Aðrar nefndir, stjórnir og notendaráð, sem funda allt að níu sinnum á ári.
  5. Verkefnabundnar nefndir sveitarstjórnar og fundasetur, sem falla ekki undir liði a-d og starfa samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.

Skilgreining á fundi er sú að til hans sé boðað með dagskrá og um hann sé rituð fundargerð sem komi til umfjöllunar í stjórnsýslu sveitarfélagsins.

4. gr. Föst mánaðarleg þóknun sveitarstjórnarfulltrúa.

Sveitarstjórnarfulltrúar þiggja fasta þóknun á mánuði fyrir störf sín fyrir sveitarfélagið sem nemur 15% af grunni, sbr. 2. mgr. 1. gr. Á sama hátt þiggur fyrsti varamaður hvers framboðs sem hlýtur kjörinn fulltrúa í kosningum fasta þóknun á mánuði sem nemur 3% af grunni. Forseti sveitar­stjórnar fær að auki fast álag á mánuði sem nemur 8% af grunni.

Föst mánaðarleg þóknun til kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa telst vera þóknun fyrir öll þau störf sem sveitarstjórnarfulltrúar taka að sér á vegum sveitarfélagsins og vegna undirbúnings fyrir fundi í sveitarstjórn. Föst mánaðarleg þóknun er einnig vegna funda sem viðkomandi fulltrúar sækja innan og utan sveitarfélagsins.

5. gr. Föst mánaðarleg þóknun heimastjórnarfulltrúa.

Heimastjórnarfulltrúar þiggja fasta þóknun á mánuði fyrir störf sín fyrir sveitarfélagið sem nemur 4,5% af grunni.

6. gr. Fundarseta sveitarstjórnar.

Fulltrúar í sveitarstjórn fá sérstaka þóknun fyrir hvern setinn fund í sveitarstjórn sem nemur 3% af grunni, sbr. 2. mgr. 1. gr. Varafulltrúar sem sitja fundi í sveitarstjórn fá greidda sömu þóknun og aðal­fulltrúar fyrir hvern setinn fund. Víki aðalfulltrúi af fundi undir sérstökum dagskrárlið sökum van­hæfis í einstökum málum skal slíkt ekki hafa skerðandi áhrif á þóknun viðkomandi. Taki vara­fulltrúi sæti aðalfulltrúa á fundi undir sérstökum dagskrárlið skal viðkomandi greidd þóknun sem nemur 1/3 af 3% af grunni.

7. gr. Lífeyrisréttindi og tryggingar.

Sveitarfélagið heldur eftir iðgjaldi í lífeyrissjóð af þóknunum sem greiddar eru samkvæmt reglum þessum eftir ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Greitt er iðgjald í lífeyrissjóð og er mótframlag sveitarfélagsins 11,5%.

Sveitarstjórnar- og heimastjórnarfulltrúar eru tryggðir gegn slysum í starfi skv. heildartrygg­ingar­samningi sveitarfélagsins til jafns við starfsmenn sveitarfélagsins.

8. gr. Þóknun fyrir setu í fastanefndum og heimastjórnum.

Fyrir hvern setinn fund í fastanefndum sveitarfélagsins og heimastjórnum, sbr. b- og c-lið 3. gr., er greidd þóknun sem nemur 3% af grunni. Formaður fastanefndar þiggur 7,5% af grunni fyrir hvern fund.

Áheyrnarfulltrúar í fastanefndum, sem tilnefndir eru samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, fá greidda sömu þóknun fyrir fundarsetu og aðalfulltrúar. Aðrir áheyrnarfulltrúar fá ekki greidda þóknun fyrir fundarsetu.

Varafulltrúar í fastanefndum og heimastjórnum fá greidda sömu þóknun og aðalfulltrúar og áheyrnarfulltrúar fyrir hvern setinn fund. Víki aðalfulltrúi af fundi undir sérstökum dagskrárlið sökum vanhæfis í einstökum málum skal slíkt ekki hafa skerðandi áhrif á þóknun viðkomandi. Taki vara­fulltrúi sæti aðalfulltrúa á fundi undir sérstökum dagskrárlið skal viðkomandi greidd þóknun sem nemur 1/3 af 3% af grunni.

9. gr. Þóknun fyrir setu í öðrum nefndum, stjórnum og ráðum.

Fyrir hvern setinn fund í öðrum nefndum, sbr. d- og e-lið 3. gr., er greidd þóknun sem nemur 2% af grunni.

10. gr. Greiðslur vegna funda og ráðstefna utan sveitarfélagsins.

Fyrir þátttöku á ráðstefnum og fundum utan sveitarfélagsins, sem sveitarstjórn ákveður að taka þátt í, er ekki greidd þóknun til kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins, en allur útlagður kostnaður skal greiddur skv. greiðslukvittunum.

Ekki skal greiða dagpeninga innanlands, heldur greiða skv. útlögðum kostnaði við ferðir kjörinna fulltrúa. Um ferðir erlendis gildir hið sama, en fulltrúar skulu fá samþykki sveitarstjórnar fyrir öllum slíkum ferðum og útgjöldum fyrir fram. Bókanir á flugferðum og gistingu skulu fara í gegnum skrifstofustjóra.

11. gr. Þóknun fyrir setu í nefndum, ráðum og stjórnum á vettvangi samstarfs sveitarfélaga.

Þóknun fyrir setu í nefndum og stjórnum á vettvangi samstarfs sveitarfélaga er greidd af við­komandi samtökum, nema sveitarstjórn samþykki annað sérstaklega.

12. gr. Þóknun kjörstjórnar.

Fyrir setu í kjörstjórn er greitt skv. tímagjaldi fyrir unnar klukkustundir og skal miðað við kjara­samning Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, launa­flokk 129 ásamt orlofi. Kjörstjórn fær greitt fyrir undirbúning, vinnu á kjördag og frágang að kosn­ingum loknum skv. tímaskráningu formanns kjörstjórnar. Einnig er greitt fyrir akstur sam­kvæmt aksturs­dagbók.

13. gr. Ferðakostnaður og fjarfundir.

Sveitarstjórnarfulltrúar eiga rétt á greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar, sbr. 32. gr. sveitarstjórnar­laga nr. 138/2011. Almennt skal boðið upp á að fulltrúar í nefndum og ráðum geti setið fundi með fjarbúnaði; gegnum síma eða tölvu, og þannig lágmarka kostnað við ferðir innan sveitarfélagsins eins og kostur er. Við notkun á fjarfundabúnaði á fundum skal fylgja reglum sem sveitarfélagið setur um fjarfundi á grundvelli 14. gr. samþykktar um stjórn Múlaþings nr. 1042/2020.

Fulltrúar í sveitarstjórn skulu að jafnaði mæta á fundarstað sveitarstjórnarfunda, nema brýnar ástæður mæli með því að fjarfundabúnaður sé notaður.

Akstur vegna starfa í þágu sveitarfélagsins er einungis greiddur eftir akstursdagbók eða reikn­ingi. Fulltrúar fá greiddan akstur milli heimilis og fundarstaðar enda sé vegalengdin meiri en 5 km. Þegar akstur milli heimilis og fundarstaðar er meiri en þessu nemur dragast 5 km frá akstursvegalengd fyrir hvorn legg, eða samtals 10 km fram og til baka. Miðast greiðslur á ekinn km við ákvörðun ríkis­skattstjóra um aksturskostnað. Ætíð skal leitast við að ferðast á sem hagkvæmastan hátt, t.d. nýta ökutæki sveitarfélagsins, bílaleigubíl eða samnýta ferðakosti ef mögulegt er.

14. gr. Starfsaðstaða kjörinna sveitarstjórnar- og heimastjórnarfulltrúa.

Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn og heimastjórnir hafa aðgang að vinnuaðstöðu á skrifstofum sveitar­félagsins í hverjum kjarna í samráði við sveitarstjóra eða fulltrúa sveitarstjóra á viðkomandi stað.

Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn og heimastjórnum eiga rétt á styrk frá sveitarfélaginu til kaupa á tölvu eða síma í upphafi kjörtímabils. Oddvitar framboða og formenn ráða skulu njóta mánaðarlegs símastyrks. Sveitarstjórn ákveður fjárhæðir í upphafi nýs kjörtímabils.

15. gr. Gildistaka og endurskoðun.

Reglur þessar taka gildi við staðfestingu sveitarstjórnar. Reglurnar skal endurskoða af sveitar­stjórn við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert.

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 14. júní 2023.

 

Reglurnar eru birtar í stjórnartíðindum

Síðast uppfært 20. júlí 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?