1. gr.
Rétt til niðurgreiðslu hafa allir foreldrar sem eiga lögheimili Í Múlaþingi og vista börn sín hjá dagforeldrum sem hafa staðfest leyfi til daggæslu frá sveitarfélaginu.
2. gr.
Við upphaf gæslunnar skal sótt um niðurgreiðslu á heimasíðu Múlaþings.
3. gr.
Allir foreldrar þurfa að endurnýja umsókn um niðurgreiðslu ef mánaðar hlé eða lengra verður á gæslunni, ef skipt er um dagforeldri eða ef gæslutími breytist.
4. gr.
Daggæslugjöld eru greidd niður 11 mánuði ársins. Ekki er niðurgreitt fyrir börn af leikskólum sem dvelja í daggæslu yfir sumartímann.
5. gr.
Upphæð niðurgreiðslu miðast við þann vistunartíma sem foreldrar kaupa í daggæslu, að hámarki 8 tíma daglega. Upphæð niðurgreiðslunnar er að finna í Niðurgreiðslur vegna daggæslu í heimahúsum.
6. gr.
Foreldrar staðfesta umsaminn dvalartíma með undirskrift sinni á skráningareyðublöðum eða á reikning frá dagforeldri. Kvittun frá viðkomandi dagforeldri þarf að berast til leikskólafulltrúa fyrir 27. dag hvers mánaðar.
7. gr.
Systkinaafsláttur er samtengdur milli daggæslu og leikskóla. Til að njóta systkinaafsláttar þurfa börnin að vera skráð á kennitölu sama forráðamanns og með sameiginlegt lögheimili.
Greitt er fullt gjald fyrir yngsta barn
Annað barn 40% afsláttur
Þriðja barn 100% afsláttur
8. gr.
Niðurgreitt er með eftirfarandi hætti fyrir öll börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára, þó eigi lengur en fram að þeim tíma er barn hefur grunnskólagöngu.
- Fyrir öll börn hefst niðurgreiðsla um mánaðarmót eftir 12 mánaða aldur barns.
- Dagforeldrar fá niðurgreitt með eigin börnum samkvæmt reglum þessum, að hámarki 8 tíma daglega, virka daga. Niðurgreiðslu skal miða við dvalartíma þess barns sem lengstan vistunartíma hefur í daggæslunni. Ef börn dagforeldra eru í leikskóla dregst dvalartíminn þar frá.
- Verði aðilar uppvísir að rangfærslum við tímaskráningu barna vegna niðurgreiðslu á daggæslugjöldum verður dagforeldri svipt leyfi til daggæslu með mánaðar fyrirvara og niðurgreiðslur til viðkomandi foreldris/foreldra falla niður.
- Athygli er vakin á því að samkvæmt ákvörðun Samkeppnisráðs frá 1991 er dagforeldrum óheimilt að samræma gjaldskrá sína og þess vegna eru gjöldin mishá frá einu dagforeldri til annars.
Á reikningum sem dagforeldrar gefa út og foreldrar greiða er búið að draga frá niðurgreiðslu bæjarfélagsins.
Samþykkt í Sveitarstjórn Múlaþings 15. mars 2023