Fara í efni

Reglur um leyfi Múlaþings, sem umráðamaður lands, vegna staðsetningar lausafjármuna

Reglurnar á pdf

1. gr. Markmið og gildissvið

Reglur þessa gilda um stöðuleyfisskylda hluti sem tilgreindir eru í 2.6.1. gr. byggingareglugerð nr. 112/2012, sem ætlað er að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna.

Einnig gilda reglurnar um aðra lausafjármuni, en þá sem tilgreindir eru í 2.6.1. gr. byggingareglugerð nr. 112/2012, sem ætlað er að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna.

Reglurnar eiga við um land sem Múlaþing er umráðandi yfir.

2. gr. Leyfisveitandi

Byggingarfulltrúi veitir leyfi samkvæmt þessum reglum.

3. gr. Gildistími leyfis

Leyfi getur aldrei verið lengur en eitt ár í senn. Sé leyfið vegna stöðuleyfis að þá skal það ekki vera lengra en gildistími þess.

4. gr. Gögn sem skulu fylgja með umsókn

Sé um lausafjármun að ræða, sem stöðuleyfi þarf fyrir, þá skulu sömu gögn fylgja með og þarf til vegna umsóknar um stöðuleyfi.

Þegar um aðra lausafjármuni er að ræða skulu eftirfarandi upplýsingar fylgja með

  1. Afstöðumynd sem sýnir staðsetningu lausafjármunar innan lóðar.
  2. Tilgreina staðsetningu, og landnúmer ef við á.
  3. Gera grein fyrir tilgangi og lengd leyfisins
  4. Tilgreina lengd fyrirhugaðs sölutímabils og opnunartíma, ef við á
  5. Gera grein fyrir öryggi lausafjármuna með tilliti til eldhættu, fokhættu, mengunarhættu ásamt aðgengi slökkviliðs eftir því sem við á.
  6. Gera grein fyrir lóðamörkum og staðsetningu lausafjármuna frá lóðamörkum, ef munur er nær lóðamörkum en sem nemur hæð hans skal skila inn samþykki aðliggjandi lóðarhafa.
  7. Gera grein fyrir eignarhaldi lausafjármunar. Sé umsækjandi ekki eigandi þurfa upplýsingar og staðfesting eiganda á fyrirhuguðum áformum að fylgja með.

5. gr. Atriði sem m.a. er horft til við veitingu leyfis

Eftirfarandi atriða er m.a. horft til við veitingu leyfis:

  • Staðsetning
  • Skipulag svæðisins
  • Hvort aðrir lausafjármunir séu til staðar
  • Eðlis lausafjármunarins
  • Hvers konar starfsemi er ætlað að fari fram
  • Reynslu nærliggjandi svæðis af slíkum lausafjármunum
  • Hvort útlit söluaðstöðu falli vel að umhverfinu. Efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð skal vera vandað og við hæfi þar sem salan á að eiga sér stað. Lögð er áhersla á að söluvarningur sé viðbót við það vöruúrval sem fyrir er hjá nærliggjandi þjónustuaðilum.
  • Götu‐ og torgsala má ekki skerða öryggi og aðgengi gangandi, hjólandi og akandi umferðar.
  • Gæta skal að viðunandi lágmarksfjarlægð frá inngangi næsta rekstraraðila með sambærilega vöru.

6. gr. Afgreiðsla umsókna

Fyrirkomulag úthlutunar leyfa Múlaþings byggir á „fyrstur kemur- fyrstur fær“ fyrirkomulagi. Í því felst að umsóknir verða samþykktar í þeirri röð sem þær berast nema annað fyrirkomulag hafi verið auglýst vegna úthlutunar á viðkomandi svæði. Leyfishafi hefur forgang umfram aðra aðila, til endurnýjunar á leyfi.

Við mat á umsóknum er vísað í 5. gr. þessara reglna.

Leyfisveitanda er heimilt að hafna umsóknum sem berast ef hann telur að sú notkun sem í umsókninni felst uppfylli ekki almennar kröfur sem um ræðir í reglum þessum. Höfnun skal rökstyðja með málefnalegum hætti.

Telji byggingafulltrúi leika vafi á því hvort fyrirhuguð notkun falli að núverandi skilgreiningu svæðisins og/eða valdi íbúum óþægindum eða ónæði, getur hann vísað málinu til umsagnar hjá viðkomandi heimastjórn. Umsókn getur verið hafnað á grundvelli umsagnar heimastjórnar og skal höfnun vera skrifleg þar sem ástæður eru rökstuddar með málefnalegum hætti.

Hafni leyfisveitandi umsókn þá fellur hún út og næsta umsókn þar á eftir færist upp í hennar stað, ef umsækjendur eru fleiri en einn um sama svæði.

Leyfi sem gefin eru út samkvæmt reglum þessum er ekki hægt að framselja eða framleigja.

7. gr. Ábyrgð

Umráðamaður lausafjármunar ber ábyrgð á frágangi og skal tryggja að almenningi stafi ekki hætta eða mengun af honum og að ekki geti borist eldur í nærliggjandi mannvirki. Leyfisveitanda heimilt að fara fram á að leyfishafi skili inn gögnum ásamt rökstuðningi um hvernig það skuli tryggt.

Staðsetning lausafjármuna má ekki hindra aðgengi slökkviliðs og sjúkrabíla sbr. 3. og 4. mgr. 2.6.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Lausafjármunir sem eru án leyfis kunna að verða fjarlægðir á kostnað umráðamanns.

8. gr. Gildistaka

Reglur þessar taka gildi með staðfestingu Byggðaráðs Múlaþings.

Samþykkt í Byggðaráði Múlaþings 25. febrúar 2025.

Síðast uppfært 06. mars 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd