Fara í efni

Reglur um innritun í leikskóla Múlaþings

1. gr.

Sækja má um leikskólapláss frá fæðingu barns, eða strax og kennitala þess hefur verið skráð. Sótt er um leikskóla, sbr. 26.gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 rafrænt á heimasíðu Múlaþings, www.mulathing.is, undir umsóknir.

2. gr.

Skilyrði fyrir inngöngu í leikskóla er að barn eigi lögheimili í Múlaþingi. Barnið getur verið á umsóknarlista þótt lögheimili sé annars staðar. Úthlutunin er einnig háð því skilyrði að foreldri sé ekki í vanskilum með leikskólagjöld.

3. gr.

Víkja má frá meginreglum um inngöngu nemenda í leikskóla ef sérstakar aðstæður krefjast þess og forgang í leikskóla eiga:

  • Börn einstæðra foreldra.
  • Börn í elsta árgangi leikskóla.
  • Börn starfsmanna leikskóla Múlaþings.
  • Börn geta fengið forgang skv. ákvörðun leikskólafulltrúa og fræðslustjóra, vegna sérþarfa eða félagslegra erfiðleika. Beiðni um forgang þarf að fylgja bréf frá félagsmálastjóra, félagsráðgjafa, viðurkenndum greiningaraðila, lækni eða öðrum eftir því sem við á. Ef foreldri/forráðamaður hefur athugasemdir við niðurstöðu má vísa erindinu til Fjölskylduráðs.

4. gr.

Aðalinnritun í leikskóla fer fram í apríl-maí og eru börn þá innrituð í stað þeirra sem útskrifast og hætta. Börn eru innrituð í leikskóla eftir aldri þannig að eldri börn ganga fyrir þeim yngri.

Að jafnaði eru leikskólapláss í boði fyrir börn sem náð hafa eins árs aldri við upphaf skólaárs leikskólans 1. september. Að auki er innritað á haustin og í janúar allt eftir lausum plássum og aðstæðum hverju sinni í leikskólum þegar barn hefur náð eins árs aldri.

Ef pláss losnar í annan tíma á skólaárinu þarf að taka tillit til þess aldursviðmiðs og tíma sem losnar þegar úthlutað er af biðlista í plássið.

5. gr.

Þegar barn hefur fengið inngöngu í leikskóla fá foreldrar/forsjáraðili staðfestingu í tölvupóst frá leikskólastjóra. Í flestum tilfellum hefst leikskólagangan við upphaf næsta skólaárs eða eftir að sumarleyfi leikskólans lýkur og varir fram að sumarleyfi árið sem barnið verður 6 ára.

6. gr.

Reglur þessar eru settar með stoð í 26. gr. leikskólalaga nr. 90/2008 og öðlast gildi 1. ágúst 2024. Við gildistöku þeirra falla úr gildi reglur nr. 788/2023 um leikskóla Múlaþings.

 

Reglurnar birtar í Stjórnartíðindum

 

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 12. júní 2024

Síðast uppfært 02. júlí 2024
Getum við bætt efni þessarar síðu?