Fara í efni

Reglur um heimastjórnarkosningar í Múlaþingi

 Reglurnar á pdf

1. gr.                                                                                                                                                                                      

Gildissvið

Reglur þessar gilda um kosningar um nefnd fyrir hluta sveitarfélagsins, þ.e. heimastjórnir, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, 36. gr. samþykktar um stjórn Múlaþings nr. 1216/2023 og reglugerð nr. 922/2023 um íbúakosningar sveitarfélaga.
Heimastjórnarkosningar skulu fara fram á fjögurra ára fresti, á sama tíma og kosningar til sveitar­stjórnar.
Að því leyti sem ekki er getið um það í reglum þessum gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga og reglu­gerð nr. 922/2023, um íbúakosningar sveitarfélaga.

2. gr.

Heimastjórnir

Heimastjórnir eru nefndir fyrir hluta sveitarfélagsins sem fara með afmörkuð málefni og mála­flokka, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga. Heimastjórnir eru eftirfarandi:

  1. Heimastjórn Borgarfjarðar.
  2. Heimastjórn Djúpavogs.
  3. Heimastjórn Fljótsdalshéraðs.
  4. Heimastjórn Seyðisfjarðar.

Valdmörk hverrar heimastjórnar miðast við sveitarfélagamörk Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogs­hrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar eins og þeim er lýst á sveitarfélagakorti Land­mælinga Íslands frá maí 2014.
Nánar er fjallað um heimastjórnir í 36. og 48. gr. samþykkta um stjórn Múlaþings.

3. gr.

Kosningarréttur

Til kosninga til heimastjórna, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, eiga þau kosningarrétt sem skráð eru í þeim hluta sveitarfélagsins sem atkvæðagreiðslan nær til, skv. 2. gr. reglna þessara.

Kosningaraldur er 18 ára sem miðast við að kjósandi hafi náð þeim aldri sem kosningarréttur miðar við á lokadegi atkvæðagreiðslu, standi atkvæðagreiðsla yfir tiltekið tímabil.

4. gr.

Kjörskrá

Enginn getur neytt kosningarréttar nema nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram.

Gera skal sérstakar kjörskrár sem miðast við staðarmörk hverrar heimastjórnar, sbr. 2. gr.

Að öðru leyti gilda 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 922/2023 um íbúakosningar sveitarfélaga.

 

5. gr.

Kjörstaðir og kjördeildir

Sveitarfélaginu er skipt upp í eftirfarandi kjördeildir vegna heimastjórnarkosninga og er kjósanda einungis heimilt að kjósa í sinni kjördeild:

Borgarfjörður eystri,
Djúpivogur,
Fljótsdalshérað: Kjördeild 1 og kjördeild 2,
Seyðisfjörður.

Heimilt er að flytja kjördeild frá einum kjörstað til annars í ákveðinn tíma, en óheimilt er að hafa sömu kjördeild opna á tveimur stöðum samtímis. Að öðru leyti gildir 8. gr. reglugerðar nr. 922/2023 um íbúakosningar sveitarfélaga.

6. gr.

Kjörgögn

Um kjörgögn gildir 6. gr. reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga. Gæta skal þess að litur kjör­seðils til heimastjórnarkosninga sé ekki sá sami og til sveitarstjórnarkosninga.

7. gr.

Tímabil atkvæðagreiðslu

Heimilt er að hefja atkvæðagreiðslu til heimastjórnarkosninga í fyrsta lagi 20 dögum eftir að til hennar er boðað. Atkvæðagreiðsla telst hafin þegar opnað er fyrir atkvæðagreiðslu á kjörstað.
Hægt er að kjósa til heimastjórna á skrifstofum sveitarfélagsins eða á öðrum stöðum sem sveitar­stjórn ákveður. Tímabilið getur verið tveimur til fjórum vikum fyrir kjördag og þarf að aug­lýsa.
Lokakjördagur skal vera sá sami og kjördagur til sveitarstjórnarkosninga. Á þeim degi skal kjör­staður vera sá sami og til sveitarstjórnarkosninga.

8. gr.

Framkvæmd atkvæðagreiðslu

Heimastjórnir skulu skipaðar þremur fulltrúum. Tveir fulltrúar og tveir til vara skulu kosnir beinni kosningu. Kjörgengir eru þeir í heimastjórn sem hafa kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 133. gr. sveitarstjórnarlaga. Til þess að vera kjörgengur í tiltekna heimastjórn þarf viðkomandi að vera með lögheimili innan valdmarka þeirrar heimastjórnar sbr. 2. gr. reglna þessara.

Einn fulltrúi og annar til vara eru kjörnir af sveitarstjórn og skulu þeir vera aðalfulltrúar í sveitar­stjórn. Kjör þeirra skal fara fram á sama fundi og sveitarstjórn kýs fulltrúa í fastanefndir og ráð skv. 48. gr. samþykktar um stjórn Múlaþings. Sveitarstjórn kýs formann úr hópi aðalmanna í heima­stjórn á þeim sama fundi.

Framkvæmd heimastjórnarkosninga skal vera þannig að hver kjósandi kýs einn aðalmann í heima­stjórn í beinni kosningu. Kjósandi skrifar á kjörseðil fullt nafn og heimilisfang þess sem hann kýs. Þeir tveir einstaklingar sem fá flest atkvæði eru kjörnir aðalmenn. Næstu tveir þar á eftir eru kjörnir varamenn í samræmi við fjölda atkvæða. Fái fulltrúar jafnmörg atkvæði skal varpa hlutkesti. Taki einhver ekki kjöri, láti af störfum eða missi kjörgengi skal það tilkynnt til sveitarstjórnar. Sveitar­­stjórn skal tilkynna þann sem kemur í staðinn á sveitarstjórnarfundi. Ganga skal á röð einstak­linga sem fengu kosningu til heimastjórnar eftir atkvæðamagni.

Kjörstjórn skal halda lista yfir alla sem fá atkvæði í kosningunni.

Komi til þess að heimastjórn verði ekki fullmönnuð, hvorki af aðal- eða varamönnum, skal sveitarstjórn kjósa fulltrúa í heimastjórn á eftir þeim einstaklingum sem hlotið hafa kosningu. Þetta getur t.d. átt við ef færri en 4 einstaklingar fá atkvæði við kosningar eða ef fulltrúar missa kjör­gengi síðar á kjörtímabili og varamenn eru ekki tiltækir.

Á kjörstöðum skulu vera sérstakir atkvæðakassar vegna heimastjórnarkosninga.

Atkvæðatalning skal fara fram á vegum yfirkjörstjórnar og skal talning fara fram í samræmi við 12. og 13. gr. reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga. Úrslit kosninga skulu kynnt opinberlega þegar þau liggja fyrir, þ. á m. á vefsíðu sveitarfélagsins. Yfirkjörstjórn skal tilkynna aðalmönnum og varamönnum um kosningu þeirra.

Ákvæði 44. gr. samþykktar um stjórn Múlaþings um áheyrnarfulltrúa á ekki við þar sem meiri­hluti fulltrúa í heimastjórn er kjörinn af íbúum viðkomandi hluta sveitarfélagsins.

9. gr.

Framkvæmdaaðili kosninga

Yfirkjörstjórn annast undirbúning kosninga til heimastjórna, s.s. varðandi gerð kjörgagna og annað skipulag sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 922/2023 um íbúakosningar sveitarfélaga. Yfirkjörstjórn skal skila sérstökum skýrslum til sveitarstjórnar vegna framkvæmdar kosninga í heimastjórnir sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga.

10. gr.

Aðstoðarmenn kjósenda

Um aðstoðarmenn kjósenda skulu gilda ákvæði reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga.

11. gr.

Atkvæðagreiðsla með pósti

Heimilt er að greiða atkvæði með pósti og fer um slíka atkvæðagreiðslu skv. 10. gr. reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga.

12. gr.

Gildistaka

Reglur þessar, sem settar eru á grundvelli 7. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og reglu­gerðar um íbúakosningar sveitarfélaga nr. 922/2023, öðlast þegar gildi.

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 13. desember 2023.

Síðast uppfært 05. janúar 2024
Getum við bætt efni þessarar síðu?