Fara í efni

Reglur um afslátt á fasteignaskatti hjá Múlaþingi

1.gr.

Tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Múlaþingi er veittur afsláttur af fasteignaskatti af samþykktu íbúðarhúsnæði, samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar ár hvert og reglum þessum, sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

2.gr.

Rétt til afsláttar eiga íbúðareigendur í Múlaþingi sem búa í eigin íbúð og:

  1. eru 67 ára við upphaf álagningarárs, eða eldri
  2. hafa verið úrskurðaðir 75% öryrkjar fyrir upphaf álagningarárs.
  3. hafa ekki leigutekjur af viðkomandi húsnæði.
  4. hafa ekki fullvinnandi einstakling/einstaklinga, aðra en maka búsetta á heimilinu.
  5. skilað hafa inn með umsókninni staðfestu afriti af skattframtali síðast liðins árs ásamt yfirliti yfir fjármagnstekjur sama árs.

3. gr.

Hjón og samskattað sambýlisfólk fær fullan afslátt þó einungis annar aðilinn uppfylli skilyrði 2. gr. Ef um fleiri en einn íbúðareiganda er að ræða að eign, sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr., er veittur afsláttur til þeirra sem uppfylla skilyrði 2. gr., í samræmi við eignarhluta þeirra.

4. gr.

Afsláttur er hlutfallslegur að teknu tilliti til allra skattskyldra tekna, þ.m.t. eignatekna og 50% fjármagnstekna síðast liðins árs, samkvæmt skattframtali.

Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna og samskattaðs sambýlisfólks. (tekjur í reitum 2.7 og 3.10 á skattframtali)

5. gr.

Afsláttur og tekjumörk eru ákvörðuð og samþykkt af sveitarstjórn ár hvert og birt með álagningu fasteignagjalda Múlaþings.

6. gr.

Með umsókn skal skila afriti af skattframtali vegna síðast liðins árs, staðfestu af skattstjóra, með útfylltu yfirliti yfir fjármagnstekjur. Einnig afriti af örorkuskírteini ef umsækjandi er 75% öryrki.

 

Samþykkt í byggðaráði 17. janúar 2023

Síðast uppfært 25. janúar 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?