Reglurnar á pdf
1. gr. Markmið
Markmið með dagdvöl eldri borgara hjá Múlaþingi er að veita einstaklingum sem búa í heimahúsum stuðning í þeim tilgangi að viðhalda færni og getu til að geta búið áfram heima. Megintilgangur dagdvalar er að rjúfa félagslega einangrun einstaklingsins og stuðla að öryggi og vellíðan. Leitast er við að efla einstaklinginn til sjálfshjálpar.
2. gr. Markhópar
Dagdvöl er að jafnaði ætluð einstaklingum 67 ára og eldri sem eiga lögheimili í Múlaþingi og búa í heimahúsum og metnir eru í þörf fyrir þjónustuna. Stuðst er við lög um málefni aldraðra nr. 125/1999 varðandi reglur þessar og reglugerð um dagdvöl aldraðra nr. 1245/2016.
3. gr. Skipulag og inntak þjónustunnar
Dagdvöl eldri borgara í Múlaþingi er veitt í Hlymsdölum, Miðvangi 6, Egilsstöðum og í Tryggvabúð, Markarlandi 2, Djúpavogi.
Dagdvöl eldri borgara er starfrækt alla jafna á virkum dögum samkvæmt dagskrár dagdvalar á hverjum stað.
Í dagdvöl er boðið upp á þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, hvíldaraðstöðu, ráðgjöf, hjúkrunarþjónustu, fæði, aðstoð við athafnir daglegs lífs og akstur frá og að heimili einstaklingsins.
4. gr. Mat á þörf fyrir dagdvöl og afgreiðsla umsókna
Sótt er um dagdvöl aldraðra á heimasíðu Múlaþings eða á þar til gerðu eyðublaði. Starfsmenn félagsþjónustu meta þörf umsækjanda fyrir þjónustu og afgreiða umsóknir. Þörf er metin á grundvelli heilsufars, andlegrar- og líkamlegrar færni og félagslegrar stöðu. Með umsókn veitir umsækjandi heimild til að haft verði samband við heimilislækni, starfsfólk heimahjúkrunar eða aðra þá er þekkja til umsækjanda, ef þörf krefur.
Umsókn ásamt greinargerð starfsmanns fjölskyldusviðs, er lögð fyrir meðferðarfund félagsþjónustu Múlaþings. Tekin er ákvörðun út frá þeim upplýsingum sem fram koma í umsókn og fylgigögnum.
Umsækjandi fær skriflegt svar um niðurstöðu innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst. Ef umsókn er samþykkt er tiltekið annað hvort að umsækjanda sé boðin dagdvöl eða hins vegar að umsækjandi sé kominn á biðlista og verði boðin þjónusta þegar rými losnar.
5. gr. Gjaldtaka
Notendur dagdvalar greiða daggjald fyrir veru sína hverju sinni samkvæmt reglugerð nr. 1245/2016 um dagdvöl aldraðra og árlegum ákvörðunum Múlaþings um gjaldskrá.
6. gr. Málskot
Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskylduráðs.
7. gr. Endurskoðun reglna
Reglur þessar skulu að jafnaði endurskoðaðar árlega.
8. gr. Gildistaka
Reglur þessar taka þegar gildi.
Samþykkt í byggðaráði Múlaþings 25. júní 2024