Fara í efni

Reglur leikskóla Múlaþings

1. Rekstraraðili

Leikskólar Múlaþings starfa samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009 og aðalnámskrá leikskóla frá 2011. Aðalnámskránni, sbr. 13. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008, er ætlað að vísa ólíkum hagsmunaaðilum í skólasamfélaginu veginn hvað varðar stefnu og hugmyndafræði leikskólastarfs. Samkvæmt 1. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 er leikskólinn fyrsta skólastigið í íslensku skólakerfi og annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri.

Í Múlaþingi eru sex leikskólar í jafnmörgum íbúa-/skólakjörnum, þeir eru: Bjarkatún á Djúpavogi, Leikskólinn í Brúarásskóla, Glaumbær á Borgarfirði eystri, Hádegishöfði í Fellabæ, leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla og Tjarnarskógur á Egilsstöðum. Leikskólarnir eru ólíkir að stærð, umhverfi og starfsaðstæðum og eru þrír þeirra samreknir með grunnskóla skólakjarnans, leikskólinn í Brúarási sem starfar eftir skóladagatali grunnskólans, Glaumbær og leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla.

Leikskólar Múlaþings nota leikskólakerfið Völu til að halda utan um starfsemi leikskólanna en bæði starfsfólk og foreldrar nota kerfið til samskipta og upplýsinga.

Innritun barna í leikskóla er rafræn en þegar foreldrar þiggja boð um leikskólapláss skuldbinda þeir sig til að virða leikskólatíma barnsins og greiða gjöld fyrir vistun og fæði. Í fyrsta viðtali skrifa foreldrar undir leyfi fyrir miðlun upplýsinga á milli leik- og grunnskóla þegar barn færist á milli skólastiga og einnig ef barn færist á milli leikskóla. Einnig skrifa foreldrar undir leyfi fyrir myndatökur og myndbirtingar.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á leikskólaplássi er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Segja skal upp leikskólaplássi hjá leikskólastjóra.

Óski foreldrar eftir breytingum á leikskólasamningi eða fæðiskaupum sækja þeir um það með tveggja vikna fyrirvara fyrir 1. eða 15. hvers mánaðar hjá leikskólastjóra eða rafrænt á umsóknarvef.

Óski foreldrar eftir flutningi milli leikskóla skal sækja um það á þar til gerðu eyðublaði sem hægt er að nálgast rafrænt á umsóknarvef fyrir 31. mars ár hvert. Öll börn sem byrja í leikskólum í Múlaþingi hvort sem þau hafa verið áður í leikskóla eða ekki fara alltaf í gegnum aðlögunarferli í nýjum skóla. Mikilvægt er að tryggja að leikskólabyrjunin verði sem farsælust þó barnið hafi reynslu af því að vera í leikskóla.

2. Leikskólagjöld

Múlaþing greiðir að stærstum hluta kostnað við dvöl barna í leikskólum sveitarfélagsins og er sveitarfélaginu heimilt ákveða gjaldtöku fyrir barn í leikskóla, sbr. 27. gr. laga nr. 90/2008. Leikskólagjöld eru greidd fyrir fram, gjalddagi er 1. hvers mánaðar og eindagi 16. hvers mánaðar.

Foreldrar greiða leikskólagjöld í hlutfalli við þann tíma sem börn þeirra dvelja í leikskólanum. Einnig greiða foreldrar fyrir fæði barna sinna.

Upplýsingar um gjöld og afslætti er að finna í gjaldskrá leikskóla Múlaþings og er hún birt á heimasíðu sveitarfélagsins. Ef um þriggja mánaða vanskil er að ræða er rekstraraðila heimilt að segja upp leikskólasamningi með mánaðar fyrirvara að undangenginni ítrekun.

Gjaldskráin er tvískipt:

Almennt gjald fyrir hjón og sambúðarfólk.

Forgangsgjald fyrir einstæða foreldra. Sækja þarf um að greiða forgangsgjald rafrænt á umsóknarvef. Til að greiða forgangsgjald þarf foreldri/forsjáraðili að vera skráður einstæður í þjóðskrá.

Innheimt er sérstakt gjald ef foreldrar virða ekki umsamin leikskólatíma. Þar gildir að mæti foreldrar of snemma með barn eða sæki það of seint oftar en einu sinni í mánuði er innheimt sérstakt gjald í hvert sinn. Reglan er sú að barn með skólatíma 8:00-16:00 komi í leikskólann eftir kl. 8:00 og er farið fyrir kl. 16:00.

Til að njóta systkinaafsláttar þurfa börnin að vera skráð á kennitölu sama forsjáraðila og með sameiginlegt lögheimili. Greitt er fullt gjald fyrir yngsta barn. Þar sem það á við er systkinaafsláttur samtengdur á milli daggæslu og leikskóla.

Hægt er að fá fæðiskostnað felldan niður ef nemandi er fjarverandi 10 skóladaga samfellt ef sótt er um fyrirfram. Heimilt er að fella niður fæðiskostnað vegna langtíma veikinda.

Vistunartími yngstu barnanna, þ.e. þeirra barna sem eru að hefja leikskólagönguna á öðru ári, er frá kl. 08:00 – 15:00. Mögulegt er að bæta við 15 mínútum annað hvort upphafi eða lok dags allt eftir aðstæðum hvers leikskóla.

Leikskólastjórar óska eftir sumarleyfaskráningu allra barna og uppsögn elstu barnanna í apríl ár hvert og skal skráningu vera lokið fyrir 1. maí.

  • Leikskólagjöld falla niður í sumarlokun leikskólanna en leyfilegt er að fá leikskólagjöld felld niður í allt að 6 vikur, eða 30 virka daga, vegna sumarleyfa á ári. Því er hægt að sækja um lengra gjaldfrítt sumarleyfi annað hvort í tengslum við sumarlokun eða ef leyfið er samfellt á öðrum tíma. Ef sótt er um samfellt leyfi á öðrum tíma má nýta þá daga sem eftir eru, allt að 30 dögum. Ekki er hægt að sækja tvisvar eða oftar um niðurfellingu vegna sumarleyfa utan sumarlokunar.

 

3. Opnunartími, starfsmannafundir og starfsdagar

Leikskólar Múlaþings eru með ólíkan opnunartíma sem miðast við að mæta þörfum samfélagsins og aðstæðum hvers leikskóla fyrir sig, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 655/2009. Leikskólar í þéttbýli eru ekki opnir fyrir færri en 6 börn í upphafi og/eða lok dags. Að hámarki er gert ráð fyrir að leikskólarnir geti verið opnir:

  • Bjarkatún, Djúpavogi: 7:45 til 16:15
  • Brúarás: 8:40 til 15:10
  • Glaumbær, Borgarfirði eystri: 7:50 til 16:00
  • Hádegishöfði, Fellabæ: 7:45 til 16:15
  • Leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla: 7:45 til 16:15
  • Tjarnarskógur, Egilsstöðum: 7:45 til 16:15

Leikskólar Múlaþings eru lokaðir á aðfangadag, gamlársdag og aðra virka daga á milli jóla og nýárs en gjöld eru felld niður þessa daga.

Leikskólarnir Bjarkatún, Glaumbær, Hádegishöfði, Leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla og Tjarnarskógur eru lokaðir í 5 vikur, eða 25 virka daga, vegna sumarleyfa og er lokað í júlí fram yfir verslunarmannahelgi. Fyrsti leikskóladagur eftir sumarlokun er þriðjudagur eftir verslunarmannahelgi ár hvert. Leikskólinn í Brúarási fylgir skóladagatali grunnskólans og lokar í samræmi við það.

Foreldrar geta óskað eftir vistun fyrir börn sín í fimmtu vikunni og virka daga á milli jóla og nýárs. Lágmarksfjöldi barna er fimm í hverjum leikskóla fyrir sig nema í Tjarnarskógi þar sem viðmiðið er fimm börn í hverri álmu, þe. fimm börn í yngri álmu og eldri álmu á Skógarlandi og fimm börn á Tjarnarlandi. Ef fjöldi barna eða starfsfólks er ekki nægilegur verður leikskólinn lokaður í fimm vikur og/eða aðra virka daga á milli jóla og nýárs.

Auk þess geta foreldrar sótt um gjaldfrjálst leyfi, þegar grunnskóli í sama skólakjarna og viðkomandi á lögheimili í, er í fríi eða eftirfarandi daga:

  • Í jólafríi
  • í páskafríi (dymbilviku)
  • í vetrarfríum

Leikskólar Múlaþings eru lokaðir vegna starfsmannafunda 10 sinnum á skólaári, tvo tíma í senn ýmist á milli kl. 8-10 eða kl. 14-16 allt eftir aðstæðum hvers skóla. Starfsmannafundir eru skráðir á skóladagatal skólanna.

Starfsdagar leikskólanna eru sex og er leikskólinn lokaður þessa daga. Framkvæmd starfsdaga er alfarið í höndum leikskólastjóra og er þeim ráðstafað á þann veg sem best hentar hverjum skóla. Starfsdagur eru skráðir á skóladagatal skólanna. Stefnt skal að því skólastjórnendur leik- og grunnskóla, í hverjum skólakjarna fyrir sig, samræmi þessa daga eins og kostur er.

4. Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með stoð í leikskólalaga nr. 90/2008 og öðlast gildi 1. ágúst 2024. Við gildistöku þeirra falla úr gildi reglur nr. 788/2023 um leikskóla Múlaþings.

 

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 12. júní 2024

 

Síðast uppfært 21. júní 2024