Undanfarnar vikur hafa unglingar á Djúpavogi búið til ýmiskonar varning til að selja á jólabasar kvenfélagsins Vöku sem verður í Löngubúð þriðjudaginn 5. desember.
Unglingarnir eru í unglingaráði Neista, þau koma að skipulagningu viðburða, íþróttamóta, fjáraflana og mörgu fleira. Þannig hafa þau tækifæri til að hafa áhrif, bera ábyrgð og öðlast skilning á því hvað felst í að reka ungmennafáleg og vera samfélagslega virkur.
Unglingarnir ákváðu að taka þátt í jólabasar kvenfélagsins til að safna pening til geta haldið úti öflugu starfi og gera skemmtilega og uppbyggilega hluti. Þau verða með handgert súkkulaði með piparköku kurli, mandarínubitum, sykurpúðum, karamellusósu, marsípani og fleiri ómótstæðilegum bragðtegundum. Þau máluðu fallegar jólalegar myndir sem Héraðsprent setti upp og prentaði á gæða jólakort. Einnig lærðu þau að hnýta macrame hnúta og hnýttu tugi jólaskrauta sem og bjuggu til náttúrulegar kertaskreytingar úr steinum, könglum og skreyttu svo með krukkum, gömlum kertastjökum og biluðum jólakúlum sem þau fengu á nytjamarkaðnum Notó sem foreldrafélagið rekur á Djúpavogi.
Markmið ungmennafélagsins Neista er að halda úti öflugu íþrótta- og tómstundastarfi, stuðla að heilbrigði, vellíðan og velferð og vera með forvarnarstarf. Hefur Neisti sjaldan boðið upp á jafnfjölbreytta stundaskrá: Knattspyrna, karfa, frjálsar, lyftingar, borðtennis, barre, útivist, badminton og unglingaráðið er það sem í boði er. Um 85% nemenda í Djúpavogsskóla taka þátt í starfinu, en einnig býður Neisti upp á tíma í þrek, zumba og barre fyrir unglinga og fullorðna en þessir tímar eru til að hvetja fullorðið fólk, foreldra, systkini og aðra til að hreyfa sig og æfa með unglingunum sínum.
Það er ein öflugasta forvörnin: samvera, sérstaklega samvera barna, unglinga og fullorðinna.
Með unglingaráði Neista og ýmissa viðburða sem Neisti tekur þátt í og stendur fyrir er verið að stuðla að því að börn og unglingar hafi tilgang, fái handleiðslu fullorðinna og tækifæri til að hafa tilgang og áhrif. Unglingaráð Neista tekur vel á móti öllum á sölubásnum sínum í Löngubúð næsta þriðjudag en einnig er hægt að panta vörur og fylgjast með Neista á facebook síðu Neista.