Upplýsingum um tómstundastarf eldri borgara í sveitarfélaginu hefur nú verið safnað saman á einn stað og það gefið út í formi tómstundabæklings sem er að fara í dreifingu um þessar mundir.
Það er einnig hægt að nálgast bæklinginn á heimasíðu sveitarfélagsins með því að ýta hér.
Aðspurð sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir forstöðumaður Hlymsdala að hún hefði heyrt í stjórnarmeðlimum í byggðakjörnum Múlaþings við vinnslu bæklingsins, ,,mikill spenningur og ánægja er með bæklinginn og að eldra fólk í Múlaþingi hristi sig nú saman með því að mæta í dagskrárliði bæklingsins þvert á byggðakjarna. Facebooksíður munu einnig tengja eldri borgarana betur saman og auðveldara er með þeim hætti að kynna einstaka viðburði eins og dansiböll og fleiri sérviðburði sem verða auglýstir sérstaklega.“
Dagskráin er fjölbreytt og eru eldri borgarar hvattir til þess að nýta sér viðburði í öllum kjörnunum.
Það kennir ýmissa grasa í tómstundarstarfinu og má þar til dæmis nefna línudans, opin hús, smíðar, bridge, sundleikfimi, söngstund og handavinnu. Áhugasöm eru hvött til að kynna sér dagskránna betur en í bæklingnum er einnig að finna tímasetningar og staðsetningar.
Félag eldri borgara tíundar einnig þá viðburði sem eru á þeirra vegum eins og til dæmis vorferð, jólagleði, þorrablót og fleira.
Rétt er að taka fram að haustfundur félags eldri borgara á Fljótsdalsheraði er í dag klukkan 16:00 þar sem bæklingurinn verður kynntur. Jafnframt er félagið 40 ára og í tilefni þess munu gestir gæða sér á marsipantertu.
Þegar kemur að einstaklingsþjónustu eins og heimsendingu á mat, heimaþjónustu og dagþjónustu geta íbúar haft samband við félagsþjónustu Múlaþings í síma 4 700 700.