Hið árlega Ormsteiti hefur göngu sína um helgina en hátíðin mun standa yfir frá 14. - 22. september. Ormsteiti er uppskeru- og menningarhátíð sem haldin hefur verið vítt og breitt um Fljótsdalshérað allt frá árinu 1993.
Fjöldi skemmtilegra viðburða eru komnir á dagskrá. Má þar nefna tónleika, sýningar, sundbíó, klettasöng, trúbbakvöld, markað í Samfélagssmiðjunni (Blómabæ), Fellasúpuna árlegu að ógleymdum stuðstrætónum þar sem lúðrasveit Fljótsdalshéraðs mun halda uppi stuðinu. Þá verður tívolíi slegið upp við Sláturhúsið auk fjölda annarra smærri og stærri viðburða.
Allar nánari upplýsingar um dagskrá og einstaka viðburði er að finna á Facebooksíðu Ormsteitis.