Þann 17. október næstkomandi verður haldið upp á 50 ára afmæli leikskólans Sólvalla á Seyðisfirði.
Leikskólinn á sér þó lengri og enn merkilegri sögu. Starfsemi hans hófst nefnilega fyrir tilstilli Kvenfélags Seyðisfjarðar upp úr 1960. Í upphafi var talað um dagheimili og var það rekið í kjallara skólans eða Sólvangi á sumrin en í Hótel Snæfelli á veturna.
,,Þegar leikskólinn byrjaði inn á Garðarsvegi þá var þetta svo atvinnutengt, frystihúsið og allavega tvær verslanir í bænum greiddu til að mynda fyrir dvöl barna þeirra foreldra sem hjá þeim unnu. Leikskólinn var opin frá hálf eitt á daginn og var opinn til klukkan sjö og þá sá starfsfólkið um að ræsta þar sem það var engin sér ræsting.“ Sagði Ólafía Þ. Stefánsdóttir fyrrum forstöðukona leikskólans þegar hún rifjaði upp sögu leikskólans.
Kvenfélagskonur sáu um daglegan rekstur leikskólans og það sem honum fylgdi og sveitarfélagið greiddi rekstur og laun. Kvenfélagskonur sáu þó leikskólanum fyrir leikföngum og gerðu það með ýmsum leiðum eins og fjáröflunum þar sem konurnar fóru meðal annars á flóamarkaði með greniskreytingar og jólaföndur, þá vöfðu þær einnig bolluvendi og seldu. Þær komu síðan saman um það bil vikulega á veturna og saumuðu dúkkuföt og gerðu við það sem aflaga fór.
,,Þær eru ófáar sjálfboðaliðastundirnar tengdar leikskólanum. En yndislegar minningar með góðu fólki.“ Bætir Ólafía við þessa áhugaverðu frásögn.
Það var mikill metnaður í starfinu og kvenfélagið lagði mikla áherslu á að á leikskólanum starfaði fagmenntað fólk. Fagmenntað starfsfólk hafði á þessum tíma menntað sig í Fóstruskólanum og kölluðust fóstrur.
Áður en leikskólinn Sólvellir opnaði á Garðarsvegi þá voru kvenfélagskonur búnar að sauma allskonar veggteppi með barnamyndum sem prýddu hinn nýjan leikskóla.
Í tilefni afmælis leikskólans er öllum foreldrum, systkinum, ömmum, öfum, frænkum, frændum og öðrum bæjarbúum Seyðisfjarðar boðið í afmælisveislu á leikskólanum þann 17. október klukkan 15:00-17:00.