Gengið hefur verið frá ráðningu í starf sviðsstjóra fjármála hjá sveitarfélaginu Múlaþingi. Ingvar Rafn Stefánsson viðskiptafræðingur var ráðinn í starfið.
Ingvar Rafn er með BSc. gráðu í viðskiptafræði og meistarapróf í reikningskilum og endurskoðun frá Háskóla Íslands. Undanfarið ár hefur Ingvar Rafn starfað sem deildarstjóri fjármálasviðs hjá Fjarðabyggð. Áður starfaði Ingvar Rafn hjá Deloitte á Egilsstöðum, fyrst sem sérfræðingur og verkefnastjóri og síðar sem útibússtjóri hjá Deloitte á Höfn og síðar á Egilsstöðum. Þar bar hann ábyrgð á verkefnastjórnun, ráðgjöf til viðskiptavina um uppgjörs- og endurskoðunarvinnu og gæðamálum verkefna.
Ingvar Rafn er spenntur fyrir nýju hlutverki og sagði „Ég hlakka til að takast á við ný verkefni hjá Múlaþingi og vinna með frábæru fólki á þessum góða vinnustað. Hér er gott samfélag, fjölbreytt menning og falleg náttúra sem gerir Múlaþing að einstökum stað til að vera hluti af.“ Hann mun hefja störf þann 1. apríl.
Ingvar Rafn mætir vel þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu um menntun, reynslu og þekkingu.
Sveitarfélagið býður hann velkominn til starfa.