Dagana 14.–18. október var félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan en Samfés, Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi standa fyrir vikunni árlega.
Slagorðið í ár var: „Samvera er besta forvörnin“.
Miðvikudaginn 16. október hélt félagsmiðstöðin Nýung daginn hátíðlegann. Þá opnaði starfsfólk Nýungar dyrnar fyrir fjölskyldum barna- og ungmenna félagsmiðstöðvarinnar. Opið hús var fyrir miðstig og aðstandendur yfir daginn og unglingastig um kvöldið.
Markmið dagsins var meðal annars að varpa ljósi á töfra félagsmiðstöðva landsins, hvernig óformlega menntunin sem fer fram innan veggja félagsmiðstöðva er mikilvægur liður í velferð barna, lýðræðislega umhvefið og jafningja samskiptin sem þar fara fram. Þá fengu börnin færi á að sýna fólkinu sínu hvað þau eru að gera þegar þau eru í félagsmiðstöðinni og hvers vegna það er gott að vera partur af félagsmiðstöðvastarfi.
Opnunin einkenndist af flæði þar sem farið var í allskyns leiki og aðra afþreyingu sem börn og ungmenni Nýungar eru vön að fara í. Meðal þess sem fram fór var karaoke og Kahoot liðakeppnir - börn á móti fullorðnum. Einnig var boðið upp á köku og léttar veitingar.
Mætingin fór fram úr öllum væntingum en það var yfirfullt hús mest allan daginn af áhugasömum foreldrum og fjölskyldum barna- og ungmenna Nýungar.
Nýung var umvafin hlýju, gleði og kærleik.
Starfsfólk Nýungar þakkar kærlega fyrir komuna. Þau eru meyr og þakklát fyrir það hversu mörg sáu sér fært um að mæta og tóku þátt í að gera daginn eins fallegan og raun ber vitni.