Samráðsvettvangur „Öruggara Austurland“ hélt sinn þriðja fund þann 14. október og var hann sá fjölmennasti hingað til.
Verkefninu ,,Öruggara Austurland" var komið á laggirnar fyrir rúmu ári síðan, með það að markmiði að sameina fjölbreyttan hóp aðila í baráttunni gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á svæðinu til þess að stuðla að velferð íbúa.
Meðal þátttakenda að verkefninu eru öll sveitarfélögin á Austurlandi, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Verkmenntaskóli Austurlands, Austurlandsprófastsdæmi, lögreglan og sýslumaður, auk Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri setti fundinn. Fyrri hluti fundarins snerist um farsæld barna þar sem kynnt voru farsældarlögin, stigskipting þeirra og tölfræði. Fjallað var um innleiðingu lausnateyma í skólum, samstarf um stuðning við uppeldi og nám, og áskoranir sem tengjast innleiðingu þjónustu í þágu farsældar barna. Seinni hluti fundarins var helgaður þróun verklags vegna heimilisofbeldismála og opnaði Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands þann hluta. Fyrirlesarar frá Landspítalanum fjölluðu um nýtt verklag í heilbrigðisþjónustu við móttöku þolenda heimilisofbeldis og hvernig bæta mætti samstarf gegn ofbeldi innan fjölskyldna á Austurlandi. Þverfaglegt teymi helstu lykilaðila á Austurlandi ræddi síðan hvernig betur megi vinna saman gegn ofbeldi innan fjölskyldna á Austurlandi. Mikill áhugi var á þessum málum, og þátttakendur voru sammála um mikilvægi þeirra í þágu öruggara samfélags á Austurlandi. Fundinum lauk með umræðum um næstu skref í að efla úrræði og samstarf, með lokaorðum frá Margréti Maríu Sigurðardóttur lögreglustjóra á Austurlandi.