Fara í efni

Dagar myrkurs: Kallað eftir viðburðum

14.10.2024 Fréttir

Hin árlega byggðahátíð Dagar myrkurs fer fram 28. október til 3. nóvember næstkomandi í 25. skipti. Hátíðin er sameiginleg byggðahátíð sem fer fram um allt Austurland en markmið hennar er fyrst og fremst að hvetja til samveru íbúa.

Hátíðin fer fram í vetrarbyrjun og hefur sterka tenginu við hátíðir sem haldnar hafa verið á þeim tíma frá fornu fari. Elsa Guðný Björgvinsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Múlaþingi, situr í stýrihópi hátíðarinnar: „Hefðin fyrir hátíðum í vetrarbyrjun er mjög löng en þær hafa þróast á ýmsa vegu út um allan heim. Það má segja að Dagar myrkurs séu nútímaútgáfa af slíkum hátíðum. Við þökkum fyrir sumarið og heilsum vetrinum með því að lyfta okkur aðeins upp“.

Hátíðin er fyrst og fremst hátíð íbúa og dagskráin byggist algjörlega á framtaki þeirra. Elsa Guðný segir að stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar hafi verið mjög dugleg að efna til alls konar viðburða í gegnum tíðina. „Viðburðirnir mega vera af öllum stærðum og gerðum og geta bæði verið fyrir afmarkaða hópa, til dæmis skóla eða vinnustaði, eða opnir öllum. Þetta geta verið skipulagðar gönguferðir í rökkrinu, kertaljósastundir, búningadagar, upplestur, tónleikar, tilbreytingar á matseðlum veitingastaða, lengri opnunartímar eða hvaðeina sem fólki dettur í hug.“

Hrekkjavakan, 31. október, er innan hátíðarinnar en það hefur færst í vöxt að íbúar taki sig saman og bjóði börnum í búningum að banka uppá á þeim degi og sníkja gotterí. „Við þekkjum þennan sið auðvitað best úr amerískum bíómyndum en hrekkjavakan á sér miklu eldri rætur sem teygja anga sína aftur í norræna og keltneska siði svo við þurfum ekkert að vera hrædd við að þessi hefð festi sig í sessi hér.“

Austurbrú heldur utan um hátíðina og þar verður upplýsingum um alla viðburði safnað saman. Þau sem ætla að standa fyrir viðburðum á Dögum myrkurs eru beðin um að senda upplýsingar um þá á netfangið elsa.bjorgvinsdottir@mulathing.is í síðasta lagi 17. október.

Mynd: Jón Einar Ágústsson
Mynd: Jón Einar Ágústsson
Getum við bætt efni þessarar síðu?