Oddvitar B- og D- lista í sveitarstjórn Múlaþings, þær Jónína Brynjólfsdóttir og Berglind Harpa Svavarsdóttir undirrituðu í gær, 24. maí, samkomulag um myndun meirihluta á komandi kjörtímabili, í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs sem er staðsett í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.
Í samkomulaginu er kveðið á um fjölmörg áhersluatriði við stjórn og rekstur sveitarfélagsins næstu fjögur ár auk áhersluatriða í samskiptum við ríkisvaldið um uppbyggingu þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.
Í samkomulaginu kemur fram að Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti B- lista, verður forseti sveitarstjórnar og Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti D- lista, verður formaður byggðarráðs. Í samkomulaginu kemur fram að gengið verði til samninga við Björn Ingimarsson sveitarstjóra um að gegna starfinu áfram.
Í samkomulaginu er lögð áhersla á að vinna áfram að því að byggja upp stjórnsýslu Múlaþings, með áherslu á gott samtal við íbúa í öllum byggðakjörnum, samlegð í rekstri, betri nýtingu fjármuna og bættri þjónustu við íbúa m.a. með aukinni sérhæfingu starfsfólks, áherslu á rafrænar lausnir og styttingu boðleiða. Gert er ráð fyrir að þróa áfram heimastjórnir hvers byggðarkjarna og að þeim verði ætlað framkvæmdafé til smærri samfélagsverkefna þar sem íbúar komi beint að forgangsröðun.
Vinna á aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og tryggja fullnægjandi framboð byggingarlóða auk þess sem stutt verður við byggingu íbúðarhúsnæðis með ýmsum ráðum. Þá verður því fylgt eftir að ráðist verði í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir innan sveitarfélagsins, svo sem Fjarðarheiðargöng og Axarveg. Einnig verður þrýst á ríkisvaldið um bætta heilbrigðisþjónustu í öllum byggðarkjörnum sveitarfélagsins og að aðstaða fyrir bráðagreiningu verði til staðar á Egilsstöðum. Áhersla verður lögð á að tryggja fjárframlög og framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði.
Meirihlutinn vill auka veg hafna sveitarfélagsins, byggja þær upp og nýta þau tækifæri sem í þeim felast. Þá verður lögð áhersla á uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar fyrir millilandaflug. Hvað varðar verklegar framkvæmdir er áhersla á uppbyggingu veitukerfa, húsnæði grunnskóla og að lokið verði við viðbyggingu Safnahúss. Ljúka á undirbúningi að byggingu nýs leikskóla á Egilsstöðum á kjörtímabilinu.
Nánar er hægt að kynna sér áherslur meirihlutans og fyrirhugaða skiptingu embætta í málefnasamningi.
Allar nánari upplýsingar veita Berglind Harpa Svavarsdóttir í síma 860 3514 og Jónína Brynjólfsdóttir í síma 899 5892.