Í sumar stóð Múlaþing fyrir gjaldfrjálsri söfnun brotajárns í dreifbýli sveitarfélagsins í samstarfi við Hringrás. Söfnunin heppnaðist vel en yfir 367 tonn af brotajárni söfnuðust á yfir 50 bæjum.
Á síðasta ári var ráðist í sambærilegt verkefni en þá voru gámar staðsettir á völdum stöðum í dreifbýli undir brotajárn og grófan úrgang sem íbúar gátu nýtt sér. Í ár var ákveðið að prófa að sækja brotajárn heim á hvern bæ sem þess óskaði.
Breytt söfnunarfyrirkomulag skilaði umtalsverðum árangri en á síðasta ári söfnuðust 129 tonn af brotajárni eða nærri þrefalt minna en í ár. Á móti kemur jókst akstur við söfnunina umtalsvert og var tvöfalt meiri en í fyrra.
Á fáeinum bæjum reyndist ekki unnt að taka efni og voru helstu ástæður:
- ófullnægjandi aðgengi til dæmis ótraustir eða torfærir slóðar fyrir stóran bíl.
- mikið um annan úrgang í brotajárni.
- brotajárn fannst ekki og ekki náðist í þann sem óskaði eftir þjónustunni.
- brotajárn of stórt eða umfangsmikið til að hægt væri að fjarlægja án tilkostnaðar.
Það skiptir því máli að huga vel að því hvar brotajárni er safnað saman svo hægt sé að nálgast það með auðveldum hætti. Á flestum stöðum var brotajárni safnað á aðgengilegt svæði sem er til fyrirmyndar.
Múlaþing vill þakka landeigendum fyrir góðar viðtökur og Hringrás fyrir gott samstarf. Fyrirhugað er að ráðast í sambærilega söfnun innan tíðar og verður það auglýst sérstaklega.