Fara í efni

BRAS í Safnahúsinu

26.09.2024 Fréttir

Safnahúsið á Egilsstöðum hefur verið virkur þátttakandi í BRAS nú sem áður og þar kennt ýmissa grasa fyrir börn á öllum aldri. 

Það var tildæmis mikið fjör og fróðleiksfýsn i fornleifa- og víkingasmiðjunni sem Minjasafn Austurland og Bókasafn Héraðsbúa efndu til í tengslum við BRAS og sýninguna Landnámskonan í síðustu viku. Sýningin hefur staðið yfir í Minjasfni Austurlands í sumar en þar eru til sýnis gripir sem fundist hafa í fornleifauppgreftrinum í Firði á Seyðisfirði og nælur Fjallkonunnar svokölluðu sem fannst á Vestdalsheiði árið 2004.

 

Um 30 börn og 20 fullorðnir mættu í smiðjuna þar sem gestum gafst kostur á að fá sérstaka krakkaleiðsögn um sýninguna; setja sig í spor fornleifafræðinga og grafa eftir þykistu fornleifum; máta víkingabúninga og tefla hnefatafl en mjög margir slíkir taflmenn hafa einmitt fundist í Firði. Síðast en ekki síst fengu gestir að spreyta sig á "brakeout" þraut byggða á fyrrnefndri sýningu en slíkar þrautir felast í að nýta vísbendingar og upplýsingar til að opna lása á sérstökum kassa.

Í vikunni heimsóttu einnig 9. og 10. bekkur Brúarásskóla sýninguna um Landnámskonuna og fengu leiðsögn um hana.

Hægt er að kynna sér BRAS á heimasíðu menningarhátíðarinnar og hægt er að lesa sér til um það sem er um að vera í safnahúsinu á heimasíðu Minjasansins og á Facebook síðu bókasafnsins

BRAS í Safnahúsinu
Getum við bætt efni þessarar síðu?