BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, er komin á fullt en þessi kærkomni fylgifiskur haustsins fer nú af stað í sjöunda sinn.
Yfirskrift hátíðarinnar í ár er uppspretta og er markmiðið að hvetja börn og ungmenni til að horfa inn á við og finna hvernig þau geta virkjað sköpunarkraftinn, fundið sjálfið sitt og skapað á þeirra forsendum.
Austurbrú heldur sem fyrr utan um hátíðina í góðu samstarfi við menningarmiðstöðvarnar þrjár á Austurlandi, sveitarfélög, skóla, stofnanir, austfirskt listafólk og List fyrir alla. Fjöldi viðburða er á dagskrá, bæði viðburðir sem fara fram í skólunum á skólatíma og viðburðir sem eru opnir almenningi.
Nú þegar hefur Svakalega sögusmiðjan heimsótt nokkra árganga á yngsta og miðstigi í öllum grunnskólum á Austurlandi í samstarfi við List fyrir alla og voru grunnskólar í Múlaþingi þar engin undantekning. Stjórnendur smiðjunnar, þær Blær Guðmundsdóttir og Eva Rún Þorgeirsdóttir bættu svo um betur og héldu opna smiðju í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa á Egilsstöðum þar sem fullt var út úr dyrum og áhugi barnanna leyndi sér ekki.
Meðal annarra verkefna sem boðið verður upp á í skólunum má nefna leiksýninguna Kjarval sem sett verður upp í Sláturhúsinu í samstarfi við Borgarleikhúsið en sú uppsetning er hluti af viðamiklu samstarfsverkefn um Kjarval. Annar angi þess verkefnis er sýning um Kjarval sem Minjasafni Austurlands stendur fyrir í Sláturhúsinu en í tengslum við hana verður einnig boðið upp á fræðsluverkefni. Þá mun Skaftfell bjóða uppá myndlistarverkefni í grundskólunum, Skaldbakan verður með kvikmyndanámskeið í Seyðisfjarðarskóla og ýmislegt fleira.
Meðal opinna viðburða sem framundan eru má nefnda töfrasmiðju með Einari Aroni töframanni á bókasöfnunum í Múlaþingi; víkinga- og fornleifasmiðju í tengslum við sýninguna Landnámskonan í Minjasafni Austurlands og námskeið í gerð svokallaðra mínútumynda í Sláturhúsinu með Auðdísi Tinnu Hallgrímsdóttur kvikmyndagerðarkonu samstarfi við UngRIFF.
Megin hluti dagskrárinnar fer fram í september en hún mun þó teygja sig eitthvað fram á haustið. Hægt er að fylgjast með dagskránni og sjá hvaða viðburðir eru í boði á hverjum tíma á Facebook síðu hátíðarinnar.