Fara í efni

Umsókn um svæði til notkunar fyrir hestaíþróttir.

Málsnúmer 202110214

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Djúpavogs - 19. fundur - 28.10.2021

Heimastjórn fagnar stofnun hestamannafélagsins og samþykkir að boða stjórn félagsins á fund til að fara yfir hugmyndir þeirra um uppbyggingu.

Gestir

  • Hugrún Hjálmarsdóttir - mæting: 13:00
  • Sigurður Jónsson - mæting: 13:00

Heimastjórn Djúpavogs - 22. fundur - 13.01.2022

Erindi frá nýstofnuðu hestamannafélagi á Djúpavogi um mögulega staðsetningu á hestaíþróttasvæði.

Heimastjórn fagnar miklum áhuga hestamanna á Djúpavogi á uppbyggingu hestaíþróttasvæðis, og vísar erindinu til Umhverfis og Framkvæmdaráðs til vinnslu í samráði við Heimastjórn Djúpavogs.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 44. fundur - 26.01.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá nýstofnuðu hestamannafélagi á Djúpavogi varðandi framtíðar uppbyggingu svæðis til hestaíþrótta. Málinu var vísað til ráðsins af heimastjórn Djúpavogs sem fjallaði um erindið á fundum sínum 28. október 2021 og 13. janúar 2022.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Framkvæmda- og umhverfismálastjóra er falið að koma á samtali milli nýstofnaðs hestamannafélags á Djúpavogi, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og skipulagsfulltrúa Múlaþings.

Málið að öðru leyti áfram í vinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Djúpavogs - 24. fundur - 07.03.2022

Hestamannafélagið Glampi leggur til tvær tillögur að hestaíþróttasvæði í erindi sínu til sveitarfélagsins. Heimastjórn hugnast betur að skoða tillögu stjórnar Glampa sem er fjær byggð, þar sem Heimastjórn telur að staðsetning í Bóndavörðulág þrengi að framtíðarmöguleikum íbúabyggðar. Einnig vill heimastjórn benda á svæði við Grænhraun þar sem nú er skipulagt akstursíþróttasvæði, sem mögulega væri hægt að breyta fyrir þessa starfsemi.

Heimastjórn leggur á það áherslu að skipulag sé skoðað heildstætt þannig að ein breyting trufli ekki aðra starfsemi eða uppbyggingu á nærliggjandi svæðum.

Heimastjórn vill beina því til Umhverfis og skipulagsráðs að hefja vinnu við aðalskipulagsbreytingu, þar sem tekið verði tillit til framtíðaruppbyggingar byggðarlagsins.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 50. fundur - 23.03.2022

Formaður og varaformaður hestamannafélagsins Glampa á Djúpavogi tengdust inn á fundinn og kynntu hugmyndir um uppbyggingu á framtíðarsvæði fyrir hestaíþróttir á Djúpavogi.
Skipulagsfulltrúi, Sigurður Jónsson, og íþrótta- og æskulýðsstjóri Múlaþings, Bylgja Borgþórsdóttir, sátu fundinn undir þessum lið.

Umræðu um málið vísað til næsta fundar ráðsins.

Gestir

  • Þórhildur Katrín Stefánsdóttir - mæting: 10:15
  • Berglind Elva Gunnlausdóttir - mæting: 10:15

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 51. fundur - 30.03.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að fjalla um erindi frá hestamannafélaginu Glampa sem kynnt var á síðasta fundi ráðsins. Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar fyrir kynningu frá forsvarsfólki hestamannafélagsins Glampa og fagnar hugmyndum um uppbyggingu hestasvæðis á Djúpavogi. Ráðið telur þó að umbeðið svæði í Bóndavörðulág henti ekki undir starfsemina einkum vegna nálægðar við núverandi og mögulega fyrirhugaða íbúðabyggð. Jafnframt telur ráðið að uppbygging mannvirkja í Loftskjólum kalli á víðtækari umræðu um framtíðarnýtingu Búlandsness og er ekki reiðubúið að leggja til uppbyggingu þar á þessum tímapunkti. Ráðið lýsir sig reiðubúið til frekari samvinnu með hestamannafélaginu Glampa og heimastjórn Djúpavogs til þess að finna ákjósanlegt svæði fyrir starfsemi félagsins og verði einkum horft til svæðisins suðvestan við þéttbýlið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Djúpavogs - 26. fundur - 02.05.2022

Heimastjórn leggur til við Umhverfis og framkvæmdasvið að taka saman lista yfir mögulega staði, ásamt því að útlista kosti og galla hvers staðar fyrir sig svo hægt sé að leggja mat á hverja staðsetningu fyrir sig og að vinna við það hefjist sem fyrst.

Heimastjórn Djúpavogs - 30. fundur - 06.10.2022

Drög að minnisblaði varðandi svæði til notkunar fyrir hestaíþróttir lagt fram til kynningar. Starfsmanni falið að boða skipulagsfulltrúa til næsta fundar heimastjórnar til að fara yfir málið.

Heimastjórn Djúpavogs - 31. fundur - 03.11.2022

Skipulagsfulltrúi fór yfir endurskoðað minnisblað og svaraði spurningum. Formaður Glampa fór sömuleiðis yfir áherslur og framtíðarsýn hestamannafélagsins.

Að lokinni yfirferð yfir gögn málsins og með hliðsjón af framkomnum athugasemdum og ábendingum skipulagsfulltrúa og formanns Hestamannafélagsins Glampa er heimastjórn þeirrar skoðunar að leggja beri áherslu á að svæði fyrir hestaíþróttir verði staðsett í Bóndavörðulág og vísar málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs til frekari umfjöllunar og úrvinnslu.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Sigurður Jónsson - mæting: 11:00
  • Þórhildur Katrín Stefánsdóttir - mæting: 11:00

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 68. fundur - 14.11.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur bókun frá heimastjórn Djúpavogs þar sem lögð er áhersla á að nýtt svæði fyrir hestaíþróttir verði staðsett í Bóndavörðulág.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að gert verði ráð fyrir svæði undir hestaíþróttir í nýju Aðalskipulagi Múlaþings. Í þeirri vinnu verður lögð áhersla á að skoða staðsetningu í Bóndavörðulág í samræmi við bókun heimastjórnar Djúpavogs.

Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 (ÓÁR) situr hjá.
Getum við bætt efni þessarar síðu?