Fara í efni

Bílastæðagjöld á Egilsstaðaflugvelli

Málsnúmer 202401065

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Múlaþings - 44. fundur - 17.01.2024

Fyrir liggur til umfjöllunar að Isavia innanlandsflugvellir áforma að byrja að innheimta bílastæðagjöld á Egilsstöðum og Akureyri um næstu mánaðarmót en ekki í Reykjavík.

Til máls tóku: Berglind Harpa Svavarsdóttir, Hildur Þórisdóttir, Eyþór Stefánsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Jónína Brynjólfsdóttir, Þröstur Jónsson sem bar upp fyrirspurn, Björn Ingimarsson sem svaraði fyrirspurn Þrastar Jónssonar og Þröstur Jónsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings lýsir yfir ánægju með frestun á áformum Isavia um innheimtu á bílastæðagjöldum á Egilsstöðum.
Áformin fela í sér verulega auknar álögur fyrir íbúa á landsbyggðinni auk þess sem gjaldtakan eykur kostnað við almennt samgöngukerfi landsins. Sveitarstjórn Múlaþings felur sveitarstjóra að boða fulltrúa Isavia til fundar með fulltrúum sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Byggðaráð Múlaþings - 108. fundur - 27.02.2024

Inn á fundinn undir þessum lið komu fulltrúar Isavia þau Sigrún Björk Jakobsdóttir, Ásgeir Rúnar Harðarson og Matthías Imsland og fóru yfir áform varðandi innheimtu bílastæðagjalda við flugvöllinn á Egilsstöðum. Einnig sátu fundinn undir þessum lið sveitarstjórnarfulltrúarnir Jónína Brynjólfsdóttir, Eyþór Stefánsson, Guðný Lára Guðrúnardóttir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð þakkar fulltrúum Isavia fyrir komu á fundinn og samþykkir að fela sveitarstjóra að koma á fundi byggðaráðs með innviðaráðherra varðandi fyrirhugaða innheimtu bílastæðagjalda við Egilsstaðaflugvöll.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 118. fundur - 29.05.2024

Fyrir liggja upplýsingar um fyrirhugaða gjaldtöku bílastæða á Egilsstaðaflugvelli.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings mótmælir harðlega fyrirhugaðri gjaldtöku á bílastæðum Egilsstaðaflugvallar og lýsir furðu sinni á því að Isavia skuli ekki hafa tekið tillit til þeirra ábendinga er fulltrúar sveitarfélagsins komu á framfæri á Byggðaráðsfundi með fulltrúum stjórnar og framkvæmdastjórnar innanlandsflugvalla ISAVIA.

Fyrirhuguð gjaldtaka er viðbótarkostnaður við dýran ferðakostnað íbúa Austurlands við að sækja mikilvæga heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu sem því miður er ekki boðið upp á í landshlutanum.

Byggðaráð felur sveitarstjóra að leita álits lögfræðings um lögmæti innheimtunnar á grundvelli þess að ekki liggur fyrir samþykki innviðaráðuneytisins og að einnig verði óskað eftir fundi með innviðaráðherra um málið.

Byggðaráð beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að taka málið til umfjöllunar á næsta fundi sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Djúpavogs - 50. fundur - 06.06.2024

Heimastjórn Djúpavogs tekur heilsuhugar undir bókun Byggðaráðs Múlaþings frá 29. maí sl. þar sem m.a. er bent á að fyrirhuguð gjaldtaka sé óásættanlegur viðbótarkostnaður við alltof háan ferðakostnað íbúa Austurlands við að sækja mikilvæga heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu sem því miður er ekki boðið upp á í landshlutanum.

Sveitarstjórn Múlaþings - 49. fundur - 12.06.2024

Fyrir liggur bókun frá fundi byggðaráðs Múlaþings, dags. 29.05.2024, þar sem máli er varðar bílastæðagjöld á Egilsstaðaflugvelli er beint til sveitarstjórnar til umfjöllunar. Jafnframt liggur fyrir álitsgerð lögfræðings varðandi málið.

Til máls tóku: Ívar Karl Hafliðason, Hildur Þórisdóttir, Þórlaug Alda Gunnarsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Vilhjálmur Jónsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Eyþór Stefánsson og Ívar Karl Hafliðason.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings lýsir furðu sinni á fyrirhugaðri gjaldtöku á bílastæðum við Egilsstaðaflugvöll og tekur undir með byggðaráði Múlaþings og mótmælir þessu harðlega. Eins og fram kemur í fyrirliggjandi álitsgerð lögfræðings þarf sérstaka lagaheimild fyrir þeirri gjaldtöku sem áformuð er og er slík lagaheimild ekki til staðar. Auk þessa þá væri áformuð gjaldtaka ISAVIA ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda varðandi uppbyggingu og rekstur flugavalla til lengri tíma. Sveitarstjórn Múlaþings er því sammála að brugðist verði við óæskilegri notkun bílastæða, s.s. langtíma geymslusvæði, með reglum og eftirliti en leggst alfarið gegn því að farið verði í fyrirhugaða gjaldtöku á bílastæðum við Egilsstaðaflugvöll sem mun hafa umtalsverðar auknar álögur í för með sér fyrir íbúa Austurlands er sækja þurfa verulegan hluta grunnþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Sveitarstjóra falið að koma afgreiðslu sveitarstjórnar á framfæri við ISAVIA, stjórnvöld og þingmenn kjördæmisins auk þess sem sveitarstjórn ítrekar ósk sína um fund með innviðaráðherra um málið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?