Fara í efni

Opinber störf á landsbyggðinni

Málsnúmer 202201144

Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings - 43. fundur - 01.02.2022

Til umfjöllunar var staða og þróun opinberra starfa í Múlaþingi á undanförnum árum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að fela sveitarstjóra að forma, í samræmi við umræðu á fundinum, drög að bókun er lögð verður fyrir næsta fund sveitarstjórnar og snýr að opinberum störfum á landsbyggðinni.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Djúpavogs - 23. fundur - 07.02.2022

Löggæsla á Djúpavogi.

Á Djúpavogi var starfandi lögregla til ársins 2020, staðan var þá auglýst en ekki tókst að ráða í stöðuna á þeim tíma og því hefur staðan verið laus í um tvö ár.
Sem stendur er því engin starfandi lögregla á svæðinu frá Höfn til Fáskrúðsfjarðar en 207 kílómetrar eru á milli staðanna.
Á sama tíma fjölgar fólki á svæðinu, bæði af íslenskum og erlendum uppruna, mikill fjöldi barna er á svæðinu og við bætist straumur ferðafólks, þannig að þörfin fer sívaxandi.

Eitt af því sem hefur hamlandi áhrif á að fá lögreglu til starfa er aðstöðuleysi en það húsnæði sem hefur verið notað fyrir lögregluna er gamalt íbúðarhús sem ekki hefur fengið viðhald í mörg ár og er nánast ónýtt. Á staðnum eru tækifæri til að bæta úr þessu og gera starfið og starfsemina eftirsóknarverðari.

Heimastjórn beinir því til Sveitastjórnar að koma þessari bókun á framfæri við viðeigandi yfirvöld.

Sveitarstjórn Múlaþings - 20. fundur - 09.02.2022

Fyrir lá bókun frá fundi byggðaráðs, dags. 01.02.2022, þar sem til umfjöllunar var staða og þróun opinberra starfa í Múlaþingi á undanförnum árum.

Til máls tók: Hildur Þórisdóttir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarfélögin eru misjöfn að stærð og gerð. Fjölgun opinberra starfa á þeirra vettvangi eykur samkeppnisfærni þeirra og skapar þeim tækifæri til vaxtar og framþróunar.
Framtíðarsýn Múlaþings er að áfram verði byggt á styrkum stoðum atvinnulífs á svæðinu og að stuðlað verði að fjölbreyttum störfum og atvinnulífi þ.e. þjónustu, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, fiskeldi og landbúnaði,sbr. áherslur í stefnumótandi byggðaáætlun, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að 10% opinberra starfa án staðsetningar verði á landsbyggðinni.

Að umbætur verði í þjónustu ríkisins í Múlaþingi í samræmi við markmið Stefnumótandi byggðaáætlunar. Í því felst m.a.

- Að núverandi heilbrigðisþjónusta verði efld og komið verði á fjarlæknisþjónusta í öllum byggðakjörnum Múlaþings.
- Komið verði upp á starfsstöð HSA á Egilsstöðum aðstöðu til frumgreiningar í bráðatilvikum.
- Komið verði á fót starfsstöð sjúkraþyrlu á Egilsstaðaflugvelli. Þar verði starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Austurlandi.
- Þjónusta sýslumanns Austurlands verði efld með því að viðhalda starfsemi á Seyðisfirði og fjölga stöðugildum í afgreiðslu á Egilsstöðum, þangað sem flestir leita eftir afgreiðslu mála. Undirmönnun hefur valdið fjölda lokunardaga vegna fjarveru starfsfólks.
- Sem stendur er enginn starfandi lögregla á svæðinu frá Höfn til Fáskrúðsfjarðar en rúmir 200 kílómetrar eru á milli staðanna. Æskilegt væri að byggja upp nýja aðstöðu fyrir löggæslu á Djúpavogi og gera átak í því að ráða lögreglumann þar til starfa. Einnig er á það lögð áhersla að byggð verði aðstaða fyrir löggæslu á Seyðisfirði hið fyrsta.
- Framhaldsskóla- og háskólamenntun og uppbygging rannsóknarstarfs verði efld og fjölbreytni aukin.
- Lögð er áhersla á að stuðningur verði við hugmyndir er miða að því að efla flutningskerfi og framboð á raforku og stuðla þannig að framtíðaratvinnuuppbyggingu á Austurlandi.


Því miður eru nokkur dæmi um að ríkisvaldið gangi í þveröfuga átt við þau markmið er fram koma í stefnumótandi byggðaáætlun, svo sem með uppsögnum aðstoðartollvarða á Seyðisfirði á sínum tíma.
Sveitarstjórn Múlaþings hvetur stjórnvöld til að sjá til þess að öll ráðuneyti og stofnanir ríkisins vinni markvisst að því að fjölga opinberum störfum sem víðast um landið. Til þess eru fjölmörg tækifæri.
Sveitarstóra falið að koma framangreindum áherslum á framfæri við ríkisstjórn og þingmenn kjördæmisins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Djúpavogs - 31. fundur - 03.11.2022

Heimastjórn á Djúpavogi fagnar því að lögreglan á Austurlandi verði aftur með starfsstöð á Djúpavogi. Heimastjórn telur brýnt að efla löggæslu á svæðinu ekki síst með tilliti til síaukins fjölda ferðafólks á svæðinu.

Samþykkt samhljóða.
Getum við bætt efni þessarar síðu?