Fara í efni

Erindi - aldurstakmark í líkamsrækt

Málsnúmer 202201044

Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð Múlaþings - 35. fundur - 18.01.2022

Fyrir liggur erindi frá Ágústu Margréti Arnardóttur, Guðlaugi Birgissyni, Oddnýju Önnu Björnsdóttur og Pálma Einarssyni þar sem beðið er um endurskoðun á aldurstakmarki í líkamsræktarsal á Djúpavogi.

Fjölskylduráð hafnar því að lækka aldurstakmark í líkamsræktarsal á Djúpavogi og felur formanni og starfsmanni ráðsins að svara því í samræmi við umræður á fundinum.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Ungmennaráð Múlaþings - 12. fundur - 21.02.2022

Á fundi sínum þann 21. desember 2021 samþykkti fjölskylduráð Múlaþings breytingar á reglum um líkamsræktarsali sveitarfélagsins.

Bókun fjölskylduráðs um málið útleggst svona:

Fyrir liggja drög að upplýsingabókum fyrir íþróttamannvirki í Múlaþingi. Er íþrótta- og æskulýðsstjóra falið að vinna áfram að bókunum í samvinnu við forstöðufólk og leggja þær fyrir ráðið fyrri hluta árs 2022.

Ráðið leggur til að í öllum líkamsræktarsölum á vegum sveitarfélagsins verði sama aldurstakmark og að eftirfarandi reglur gildi:
Unglingum í 9. bekk grunnskóla er heimilt að koma eftir áramót í líkamsrækt í Múlaþingi. Er það að undangengnum áfanga í íþróttavali og/eða 3-5 tímum með þjálfara/íþróttakennara í viðkomandi líkamsrækt þar sem farið er í gegnum kennslu á tækum og umgengni í líkamsræktarsal. Þá þarf að vera til staðar undirritað leyfi foreldra.
Grunnskólanemendur fá afsláttarkjör af kortum í líkamsrækt, en frítt er í sund fyrir þennan aldur.

Að auki felur ráðið íþrótta- og æskulýðsstjóra að vinna með forstöðufólki að því að samræma reglur fyrir íþróttamannvirki í sveitarfélaginu á árinu 2022.


Fjölskylduráð bókaði síðan eftirfarandi á fundi sínum þann 1. febrúar 2022.


Fjölskylduráð hefur endurskoðað ákvörðun sína um aldurstakmark í íþróttamannvirkjum Múlaþings og samþykkir að fresta gildistöku fram á haust 2022. Jafnframt er samþykkt að aldurstakmark í líkamsræktarsali skuli miðast við 9. bekk grunnskóla og taka gildi samhliða upphafi skólaárs.


Ungmennaráð Múlaþings gagnrýnir að fjölskylduráð hafi ekki haft samráð við ungmennaráð um breytingar á reglum íþróttamannvirkja Múlaþings. Í erindisbréfi ungmennaráðs stendur skýrum stöfum að „Nefndir og ráð sveitarfélagsins senda ungmennaráði, til umsagnar, öll málefni sem snerta ungt fólk og börn sérstaklega.“ Það má vera ljóst að aldurstakmörk í líkamsræktarstöðvar á vegum sveitarfélagsins snerta ungt fólk sérstaklega og fjölskylduráð hefði átt að senda málið á ungmennaráð til umfjöllunar og umsagnar áður en ákvarðanir voru teknar.

Ungmennaráð er þeirrar skoðunar að unglingar ættu að fá kennslu í ræktinni í íþróttavali grunnskólanna áður en þeir yrðu gjaldgengir inn í líkamsræktarsali sveitarfélagsins einir síns liðs. Ungmennaráð vill að aldurstakmarkið miðist við 8. bekk, ekki 9. bekk. Ráðinu þykir ekki réttlætanlegt að hækka aldurstakmarkið úr 8. bekk á Seyðisfirði og Djúpavogi vegna þess að þar er framboð af skipulögðu íþróttastarfi ekki eins mikið og á Héraði. Þar sem ráðið telur heldur ekki réttlætanlegt að mismuna börnum eftir búsetu verður aldurstakmarkið að vera það sama á Héraði og annarsstaðar, eða 8. bekkur.

Samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða.

Fjölskylduráð Múlaþings - 39. fundur - 15.03.2022

Fyrir liggur bókun ungmennaráðs Múlaþings frá 21. febrúar 2022.

Fjölskylduráð Múlaþings harmar þau mistök að hafa ekki sent ungmennaráði Múlaþings erindi um aldurstakmörk í íþróttamiðstöðvum til umfjöllunar. Það er hárrétt ábending frá ungmennaráði að það hefði átt að gera. Fjölskylduráð þakkar ábendinguna og tekur hana til sín fyrir komandi erindi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?