Fara í efni

Ósk um umsögn við frumvarp um Hálendisþjóðgarð 369. mál

Málsnúmer 202012144

Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings - 8. fundur - 12.01.2021

Jódís Skúladóttir tók til máls og hvatti byggðaráðsfulltrúa til jákvæðrar nálgunar við málið.

Lagt fram til kynningar.

Sveitarstjórn Múlaþings - 6. fundur - 13.01.2021

Fyrir lá umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál, frá nefndasviði Alþingis.

Til máls tóku: Jódís Skúladóttir, sem lagði fram breytingartillögu við fyrir liggjandi tillögu. Stefán Bogi Sveinsson, Þröstur Jónsson, Jódís Skúladóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Eyþór Stefánsson, Jódís Skúladóttir og Hildur Þórisdóttir.

Eftirfarandi breytingartillaga Jódísar lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings telur að þegar horft er til hálendisins megi taka undir þau markmið sem sett eru fram í 3. gr. frumvarpsins, þar sem meðal annars er lögð áhersla verndun náttúru og sögu, bætt aðgengi almennings, eflingu rannsókna, aukið samstarf og eflingu og styrkingu byggða og atvinnulífs.
Sveitarstjórn vekur athygli á skipulagsvaldi sveitarfélaga og mikilvægi þess að það verði virt innan áformaðs Hálendisþjóðgarðs.
Þá telur sveitarstjórn að þó að reynsla af rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs sé um margt ágæt, þá hafi framan af skort verulega á að fjármagn hafi fylgt nauðsynlegri starfsemi og uppbyggingu innviða. Á liðnum þremur árum hefur orðið mikil bót á því, ráðist hefur verið í nauðsynlega uppbyggingu innviða og heilsársstöðum í Vatnajökulsþjóðgarði fjölgað verulega ? nær öllum utan höfuðborgarsvæðisins. Sveitarstjórn Múlaþings leggur ríka áherslu á að störf vegna umsjón friðlýstra svæða séu heima í héraði og að fjármögnun fylgi friðlýsingum frá fyrsta degi.
Sveitarstjórn Múlaþings vill einnig benda á að styrking flutningskerfis raforku, einkum með endurnýjun byggðarlínu og hringtengingar um landið, er mikilvægt verkefni til að styðja við atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun á Austurlandi. Slíkar flutningslínur verða að liggja sunnan eða norðan Vatnajökuls, á svæði innan þjóðgarðs og er nauðsynlegt að gert verði ráð fyrir þessum möguleika í regluverki sem gildir um þjóðgarða á þessu svæði.
Sveitarstjórn vekur sérstaka athygli á því að í framlögðu frumvarpi ná þjóðgarðsmörk eingöngu til þeirra svæða þar sem endanleg niðurstaða er komin í þjóðlendumörkum. Í ljósi þess að ríkið hefur nú þegar forræði að verulegu leyti á því landi sem um ræðir á hálendi Austurlands þar sem á eftir að ljúka vinnu við þjóðlendumörk á austursvæði, þá leggur sveitarstjórn áherslu á að þeirri vinnu verði hraðað sem kostur er svo hægt verði að taka frekari afstöðu til mála er varðar möguleg mörk hálendisþjóðgarðs á hálendi Austurlands sem snýr að Múlaþingi.

1 greiddi henni atkvæði (Jó.S.) 3 sátu hjá ( HÞ. KS. ES.)og 7 voru á móti.


Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings telur að þegar horft er til hálendisins megi taka undir þau markmið sem sett eru fram í 3. gr. frumvarpsins, þar sem meðal annars er lögð áhersla verndun náttúru og sögu, bætt aðgengi almennings, eflingu rannsókna, aukið samstarf og eflingu og styrkingu byggða og atvinnulífs. Það er hins vegar mat sveitarstjórnar að stofnun þjóðgarðs í þeirri mynd sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé ótímabær og lýsir sveitarstjórn því andstöðu sinni við að það verði samþykkt.
Sveitarstjórn telur að með stjórnunar- og verndaráætlunum þjóðgarða sé of langt gengið í því að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga. Þó svo að meirihluti fulltrúa í umdæmisráðum komi úr sveitarfélögum á viðkomandi rekstrarsvæði þá er eftir sem áður gert ráð fyrir því að fulltrúar annarra sveitarfélaga og félagasamtaka geti tekið bindandi skipulagsákvarðanir innan sveitarfélags þó svo að fulltrúar þess sveitarfélags leggist gegn því.
Þá telur sveitarstjórn að þó að reynsla af rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs sé um margt ágæt, þá sé langur vegur frá því að ríkisvaldið hafi fjármagnað starfsemi hans með fullnægjandi hætti eða staðið við þau fyrirheit um uppbyggingu innviða sem fylgja áttu í kjölfar stofnunar hans. Að mati sveitarstjórnar Múlaþings er það ærið og metnaðarfullt verkefni að byggja Vatnajökulsþjóðgarð upp með fjölgun starfa og auknum tækifærum í atvinnustarfsemi. Ekki verður séð að það hjálpi til við það verkefni að láta hann falla inn í ennþá stærri þjóðgarð.
Sveitarstjórn Múlaþings vill einnig benda á að styrking flutningskerfis raforku, einkum með endurnýjun byggðarlínu og hringtengingar um landið, er mikilvægt verkefni til að styðja við atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun á Austurlandi. Slíkar flutningslínur verða að liggja sunnan eða norðan Vatnajökuls, á svæði innan þjóðgarðs og er nauðsynlegt að gert verði ráð fyrir þessum möguleika í regluverki sem gildir um þjóðgarða á þessu svæði.
Sveitarstjórn Múlaþings vill og benda á að allt það land sem ekki er þegar friðlýst og stefnt er á að verði innan hins nýja þjóðgarðs eru þjóðlendur sem íslenska ríkið fer þegar með forræði á. Vekur sveitarstjórn sérstaklega athygli á því að enn hefur ekki verið fjallað um þjóðlendumörk innan miðhálendislínu í Suður-Múlasýslu og því er nokkur óvissa um fyrirhuguð þjóðgarðsmörk á því svæði..
Í ljósi þess að ríkið hefur nú þegar forræði á megninu á því landi sem um ræður telur sveitarstjórnin hins vegar nærtækt að ríkisvaldið setji aukinn kraft í umsjón þessara landsvæða og minnir á að stofnun þjóðgarðs er ekki forsenda þess að ná þeim markmiðum sem greint er frá hér að framan heldur megi vinna að uppbyggingu innviða og jafnvel skipuleggja landvörslu á þeim svæðum þar sem þörf er á slíku á grundvelli gildandi laga um náttúruvernd. Þetta telur sveitarstjórn Múlaþings að sé vænleg leið til að auka traust á hugmyndinni um þjóðgarð á miðhálendinu, en eins og öllum má vera ljóst þá eru þau áform umdeild og deilur og andstaða eru sjaldnast heppilegt veganesti fyrir stórverkefni á borð við þetta sem samkvæmt uppleggi sínu eiga að vera þjóðinni allri til hagsbóta.

Tillagan borin upp og samþykkt með 9 atkv. 1 var á móti (Jó.S.) og 1 sat hjá (HÞ.)

Jódís Skúladóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
VG í Múlaþingi hafnar þeirri bókun sem lögð er fram og telur hana bæði byggja á rangfærslum og ekki til þess fallna að koma þeim sjónarmiðum og áhyggjum sem íbúar sveitarfélagsins hafa um Hálendisþjóðgarð né sé hún til þess fallin að skapa sátt um málið. Fagleg yfirferð og beinar tillögur að úrbótum á frumvarpinu hefðu skilað sveitarfélaginu sterkari stöðu og þannig stutt við innviði samfélagsins.

Getum við bætt efni þessarar síðu?