Fara í efni

Betri vinnutími skapar meiri fyrirsjáanleika

13.06.2024 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Ákveðið hefur verið að festa í sessi fyrirkomulag sem hefur verið við lýði í leikskólum Múlaþings í vetur.

Vinnuhópur á vegum sveitarfélagsins lagði til breytingarnar sem voru samþykktar samhljóða á fundi fjölskylduráðs 4. júní síðastliðinn sem og sveitastjórnar 12. júní síðastliðinn.

Vinnuhópurinn átti að finna leiðir til þess að bæta vinnutíma starfsfólks í leikskólum Múlaþings sem og ákveða framtíðarfyrirkomulag á sumarleyfum. Vinnuhópurinn hafði að leiðarljósi farsæld barna og þarfir og óskir fjölskyldna í sveitarfélaginu. Þessi vinna er liður í innleiðingarferli sveitarfélagsins í að verða barnvænt sveitarfélag.

Eftir að hafa lagt könnun fyrir starfsfólk leikskóla sem og foreldra leikskólabarna, rætt við hagsmunaaðila og rýnt ýmiskonar gögn tengd viðfangsefninu þá lagði hópurinn eftirfarandi til:

  • Að auka sveigjanleika í kringum gjaldfrjálsu dagana sem nú þegar eru skilgreindir, eða daga í kringum jól, vetrarfrí og páskafrí/dymbilviku og geta foreldrar fengið niðurfellingu gjalda í kringum frídaga í grunnskóla í sama skólahverfi.
  • Að lokun leikskóla sé í 5 vikur á sumrin og miðist við að leikskólastarf hefjist að nýju eftir sumarleyfi á þriðjudegi eftir verslunarmannahelgi. Foreldrar geti þó óskað eftir því að barn þeirra geti mætt síðustu viku lokunar og ef ákveðið margir foreldrar óska þess og mönnun er nægjanleg er leikskólinn opinn þá viku.
  • Að starfsmannafundir séu á skólatíma, ýmist frá klukkan 8-10 eða klukkan 14-16.
  • Yngstu börn leikskólanna, þau sem verða tveggja ára á árinu, geta fengið sjö tíma vistun á dag, með möguleika á auka korteri við upphaf eða lok vistunartíma, allt eftir aðstæðum í hverjum skóla fyrir sig.

Það er ósk sveitarfélagsins að þetta skili sér í betri vinnutíma fyrir starfsfólk sem svo skilar sér út í starfið. Slíkt skilar sér síðan í betri vinnuanda, skólabrag og líðan nemenda og fjölskyldna þeirra. Þá skapar fyrirkomulagið meiri fyrirsjáanleika þegar kemur að mönnun skólanna sem og leyfum sem foreldrar þurfa gjarnan að skipuleggja fram í tímann. Foreldrum sveitarfélagsins verður sendur eftirfarandi kynningarbæklingur.

Betri vinnutími skapar meiri fyrirsjáanleika
Getum við bætt efni þessarar síðu?