Fara í efni

Ungmennaráð Múlaþings

15. fundur 21. júní 2022 kl. 19:30 - 21:00 í fundarsal sveitarstjórnar, Lyngási 12 Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Einar Freyr Guðmundsson formaður
  • Jóhann Eli Salberg Dánjalsson aðalmaður
  • Júlíus Laxdal Pálsson aðalmaður
  • Karítas Mekkín Jónasdóttir aðalmaður
  • Lena Lind B. Brynjarsdóttir aðalmaður
  • Páll Jónsson aðalmaður
  • Unnar Aðalsteinsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Dagný Erla Ómarsdóttir verkefnastjóri íþrótta- og æskulýðsmála
  • Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir íþrótta- og æskulýðsstjóri
Fundargerð ritaði: Dagný Erla Ómarsdóttir verkefnastjóri íþrótta- og æskulýðsmála

1.Ungmennaþing 2022

Málsnúmer 202203174Vakta málsnúmer

Ályktun Ungmennaþings 2022

“Þann 4. maí 2022 stóð ungmennaráð Múlaþings fyrir Ungmennaþingi í Valaskjálf á Egilsstöðum. Yfirskrift þingsins í ár var „Hvað þýðir sameining fyrir okkur?“ og var, eins og gefur að skilja, lögð áhersla á það hvort og hvernig sameining fjögurra sveitarfélaga í eitt hefur áhrif á ungt fólk.

Það var Erla Jónsdóttir, fyrrum formaður ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs, sem sá um fundarstjórn en erindi fluttu þeir Einar Freyr Guðmundsson, formaður ungmennaráðs Múlaþings og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, auk þess sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sendi þátttakendum þingsins rafræna kveðju. Þá mættu á þingið forsvarsaðilar allra stjórnmálaflokka sem í kjöri voru til sveitarstjórnarkosninga í Múlaþingi í maí. Fluttu þessir aðilar stutta framsögu og svöruðu svo spurningum þingsins. Það voru meðlimir ungmennaráðs sem sáu um að stýra vinnu þinggesta undir styrkri leiðsögn Tinnu Halldórsdóttur, sérfræðings hjá Austurbrú.

Er öllum ofangreindum þakkað kærlega fyrir sitt framlag til þingsins og er gestum þingsins sérstaklega þakkað fyrir að mæta og láta rödd sína heyrast.

Þinggestir lögðu töluvert upp úr því að auka þyrfti val í grunnskólum og þá ekki síst í tungumálum. Var til viðbótar nefnt að aukin kynfræðsla væri nauðsynleg í skólum og að auka vægi náms sem gerir nemendur tilbúna í lífið, t.a.m. fjármálalæsi, skattamál og tölvutækni. Því til viðbótar var rætt um mikilvægi þess að öll fái verkefni við hæfi í skólanum, hvort sem það er aukinn stuðningur, léttara námsefni eða möguleikinn á því að hefja nám í framhaldsskólum fyrr.

Jafnrétti í skólastarfi var einnig rætt og mikilvægi þess að starfsfólk sé vel frætt um hverskonar jafnréttismál, að starfsfólk stöðvi óviðeigandi orðræðu og að kennslu- og fræðsluefni sé vel rýnt með tilliti til jafnréttismála. Bæta þurfi aðgengismál á mörgum stöðum og auka mikið fræðslu til nemenda.

Ekki þótti gestum þingsins ástæða til þess að skoða sameiningar grunnskóla, en þótti hins vegar rík ástæða til þess að reyna að vinna að samnýtingu kennara á milli skóla í sveitarfélaginu og að stefna að því að kenna unglingum t.d. í Fella- og Egilsstaðaskóla meira saman.

Mikil ánægja var með starfsemi félagsmiðstöðva í Múlaþingi og voru styrkleikar þeirra taldir m.a. frábært starfsfólk, fjölbreytt starfsemi og fjöldi opnunartíma. Gestir þingsins voru þó sammála um að bæta þurfi aðstöðu í öllum félagsmiðstöðvum. Fer það eftir um hvaða félagsmiðstöð ræðir hvað þarf helst að bæta en bæði félagsmiðstöðina Geimstöðina á Seyðisfirði og Zion á Djúpavogi vantar framtíðarhúsnæði auk þess sem búnaði er ábótavant.

Hvað samgöngur varðar kom fram að ungmenni telja auknar samgöngur á milli byggðakjarna í sameinuðu sveitarfélagi mikilvægar. Að það sé auðvelt að komast á milli staða til að nýta þá þjónustu sem er í boði, ekki síst á íþróttaæfingar og í félagsmiðstöðvar. Þá töldu þinggestir mikilvægt að allir unglingar geti stundað félagsmiðstöðvar, óháð búsetu, og að best væri ef skólabílar eða strætó myndu sjá um ferðir í og úr félagsmiðstöð, t.d. fyrir þau börn sem búa utan þéttbýlis.

Íþrótta- og tómstundastarf í sveitarfélaginu var svo það sem tók einna mest pláss. Töldu ungmennin að bæta þyrfti framboð íþrótta- og tómstundastarfs í smærri byggðakjörnum Múlaþings auk þess að bætt aðstaða væri lykilatriði á öllum stöðum. Ákall um bætta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar var hávært, þá bæði á Egilsstöðum og Fellabæ og Seyðisfirði, og eins aukna aðstöðu til tónlistarnáms og -sköpunar.

Fleiri atriði voru nefnd og málefnum gerð skil, en öllum ábendingum ungmennaþings verður komið áfram til viðeigandi stofnana, ráða og nefnda sveitarfélagsins og ungmennaráð fylgir þeim eftir á komandi starfstímabili."

Til viðbótar við ályktun ungmennaþings var undir þessum lið farið yfir endurgjöf þinggesta og niðurstöður könnunar sem send var til kennara og starfsfólks í grunnskólum Múlaþings eftir þingið og rætt hvernig hægt er að bæta skipulag og utanumhald þingsins.

Ungmennaráð Múlaþings minnir á að ungmennaþing er nauðsynlegur vettvangur til að ná til ungs fólks í sveitarfélaginu og leggur til að slíkt þing verði haldið næst 2024 og að fyrir það þing verði aukin samvinna við bæði grunn- og menntaskóla svo að tækifæri ungs fólks til að hafa áhrif nýtist sem best.

Samþykkt samhljóða.

2.Allir með! - þróunarverkefni Íþróttafélagsins Hattar

Málsnúmer 202106104Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

3.Ærslabelgur á Egilsstöðum

Málsnúmer 202104277Vakta málsnúmer

Ungmennaráð Múlaþings lýsir yfir ánægju með að langþráður ærslabelgur sé risinn í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum og fagnar því að umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hafi tekið ráðleggingum ungmennaráðs varðandi staðsetningu belgjarins.

Þá leggur ungmennaráð áherslu á að ljúka sem fyrst uppsetningu ærslabelgjar í Fellabæ.

Samþykkt samhljóða.

4.Störf ungmennaráðs

Málsnúmer 202102222Vakta málsnúmer

Á þessum síðasta fundi sitjandi ungmennaráðs Múlaþings vilja meðlimir nýta tækifærið og hvetja ungt fólk í sveitarfélaginu til þess að bjóða sig fram til þátttöku í ráðinu. Það er ákaflega mikilvægt að raddir ungmenna í sveitarfélaginu heyrist, og eftir þeim sé tekið.

Önnur ráð og nefndir í Múlaþingi eru minnt á störf ungmennaráðs og að í erindisbréfi segir „Nefndir og ráð sveitarfélagsins senda ungmennaráði, til umsagnar, öll málefni sem snerta ungt fólk og börn sérstaklega.“ Bendir ráðið á að ráð og nefndir mega vera duglegri við að fá umsagnir og afstöðu ungmennaráðs til ýmissa mála, en það er hópurinn sem lifir með þeim ákvörðunum sem teknar eru í dag.

Jafnframt hvetur ráðið nýtt ungmennaráð, alla skóla og þau félög sem eiga fulltrúa í ráðinu til þess að standa vel að kynningu á ungmennaráði Múlaþings og kosningum um sæti í ráðinu til að öllum sé gert ljóst mikilvægi ráðsins í stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 21:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?