Fara í efni

Náttúruverndarnefnd

14. fundur 13. ágúst 2019 kl. 16:00 - 18:30 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Stefán Bogi Sveinsson formaður
  • Aðalsteinn Ingi Jónsson varaformaður
  • Sigríður Ruth Magnúsdóttir aðalmaður
  • Kristjana Sigurðardóttir bæjarfulltrúi
  • Freyr Ævarsson starfsmaður
  • Eyrún Arnardóttir varamaður
Fundargerð ritaði: Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir að tveimur málum yrði formlega bætt á dagskrá fundarins en búið var að senda út upplýsingar um þau mál. Eru það liðir nr. 6 og 7. Ekki var gerð athugasemd við það.

Þegar kom að lið nr. 6 í dagskrá fundarins vék Aðalsteinn Jónsson af fundi og Eyrún Arnardóttir tók sæti sem varamaður.
Þegar kom að lið nr. 8 í dagskrá fundarins vék Ruth Magnúsdóttir af fundi og Kristjana Sigurðardóttir bæjarfulltrúi L-lista tók sæti á fundinum sem gestur.

1.Starfs- og fjárhagsáætlun náttúruverndarnefndar 2020

201906103

Í vinnslu.

2.Starfshópur um greiningu tækifæra í náttúruvernd og ferðaþjónustu á Úthéraði

201908045

Fyrir fundi náttúruverndarnefndar liggur að skipa tvo fulltrúa í starfshópinn, en atvinnu- og menningarnefnd hefur þegar skipað sína fulltrúa.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd samþykkir að tilnefna Stefán Boga Sveinsson og Guðrúnu Schmidt til setu í starfshópnum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Landskemmdir í tengslum við byggðarlínu

201905146

Verkefnastjóri umhverfismála greinir frá samskiptum við fulltrúa Landsnets og Fljótsdalshrepps vegna málsins. Fram hefur komið að Landsnet hyggist bregðast við og lagfæra landskemmdir á svæðinu sem um ræðir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd leggur áherslu á mikilvægi þess að sem fyrst verði ráðist í að lagfæra þær landskemmdir sem þarna er um að ræða en þær eru að mestu eða öllu leyti innan Fljótsdalshrepps. Við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu á næstunni verði þess einnig gætt að lágmarka áhrif á gróið land. Nefndin væntir áframhaldandi góðs samstarfs við Landsnet, sveitarstjórn Fljótsdalshrepps og aðra hagsmunaaðila um að vernda viðkvæma náttúru á svæðinu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Fundur Fljótsdalsstöðvar og Fljótsdalshéraðs 2019

201905175

Verkefnastjóri umhverfismála greinir frá samskiptum vegna málsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd telur að mótvægisaðgerðir vegna áhrifa af byggingu Kárahnjúkavirkjunar verði að taka sérstakt tillit til svæða sem njóta verndar eða sérstöðu vegna náttúrufars. Nefndin bendir á að svonefndir Víðar og Víðihólmar í Lagarfljóti eru innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá (647. Finnsstaðanes og Egilsstaðanes) og því mikilvægt að sem fyrst verði brugðist við landbroti sem þar á sér stað.

Náttúruverndarnefnd felur formanni og starfsmanni að taka saman upplýsingar af loftmyndum og frá landeigendum um umfang landbrots á svæðinu sem um ræðir. Einnig að kanna stöðu annarra svæða sem eru á náttúruminjaskrá og liggja að Lagarfljóti.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Ósk um breytingu aðalskipulags, Geitdalsvirkjun

201811150

Fyrir náttúruverndarnefnd liggur að veita umsögn um lýsingu á fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd bendir á að fyrirhuguð framkvæmd hefur í för með sér rask á ósnortnu landi á svæði sem meðal annars fellur innan miðhálendislínu. Nefndin telur að almennt verði að gera þá kröfu að þeir hagsmunir sem réttlæta að farið sé í slíka framkvæmd liggi fyrir og séu tilgreindir þegar sveitarstjórn tekur ákvörðun um að breyta aðalskipulagi í þágu þess. Náttúruverndarnefnd telur eðlilegt að niðurstaða umhverfismats á framkvæmdinni liggi fyrir áður en tillaga til breytingar á aðalskipulagi verður tekin til afgreiðslu í bæjarstjórn. Að öðru leyti áskilur nefndin sér rétt til að veita umsögn um tillöguna þegar hún liggur endanlega fyrir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Ruth Magnúsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Gert er ráð fyrir að umsvif vegna Geitdalsvirkjunar verði á svæði sem í dag er að miklu leyti ósnortið víðerni. Fleiri virkjanakostir eru í umræðunni á svæðinu, sem tilheyrir að hluta öðrum sveitarfélögum. Samráð sveitarfélaga um framtíðarsýn, gildi og nýtingu svæðisins er brýnt áður en breytingar verða gerðar á skipulagi þess. Æskilegt væri að Fljótsdalshérað hefði frumkvæði að slíku samráði.

6.Friðlýsingar á Fljótsdalshéraði

201902089

Til kynningar eru áform Umhverfisstofnunar, landeigenda jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss og Fljótsdalshéraðs um friðlýsingu fyrrgreindra jarða.

Lagt fram til kynningar.

7.Þjóðgarður á miðhálendi Íslands

201711050

Fyrir náttúruverndarnefnd liggur boð á kynningarfund á vegum þverpólitískrar nefndar sem vinnur að tillögum um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Fundurinn verður haldinn þann 21. ágúst nk. kl. 20 í Nýheimum á Höfn í Hornafirði.

Lagt fram til kynningar.

8.Breyting á aðalskipulagi fyrir hluta Grundar á Efra Jökuldal

201806085

Fyrir náttúruverndarnefnd liggur að veita umsögn um tillögu á vinnslustigi til breytingar á aðalskipulagi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd leggst ekki gegn þeim áformum sem fram koma í fyrirliggjandi tillögu að breyttu aðalskipulagi. Að mati nefndarinnar er þó ástæða til þess að við tillöguna verði bætt að markað verði svæði í aðalskipulagi sem tekur yfir Stuðlafoss, sem er á náttúruminjaskrá, Stuðlagil og Eyvindarárgil þar sem áformað verði náttúruverndarsvæði og gert ráð fyrir göngustígum og annarri uppbyggingu sem tengist umferð ferðafólks um svæðið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Deiliskipulag Stuðlagil - Grund

201810120

Fyrir náttúruverndarnefnd liggur að veita umögn um tillögu að deiliskipulagi, Grund - Stuðlagil.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd leggur áherslu á mikilvægi þess að allar framkvæmdir á grundvelli fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu falli sem best að landslagi og miði að því að tryggja skynsamlega stýringu á umferð ferðafólks um svæðið. Nefndin telur æskilegt að í skipulaginu verði gerð grein fyrir fyrirhugaðri staðsetningu stiga og útsýnispalla eða að unnið verði að staðsetningu þeirra í nánu samstarfi við yfirvöld náttúruverndarmála hjá ríki og sveitarfélagi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

10.Stuðlagil á Jökuldal - Bókun stjórnar NAUST

201906102

Formaður gerði grein fyrir þeim fundum og samtölum sem hann hefur átt við landeigendur og aðra hagsmunaaðila vegna málsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd telur að skoða beri af alvöru þann kost að friðlýsa svæði á Jökuldal sem næði yfir Stuðlafoss, sem er á náttúruminjaskrá, Stuðlagil og Eyvindarárgil. Samþykkt er að boðað verði til umræðufundar með landeigendum á þessu svæði og fulltrúum Umhverfisstofnunar þar sem farið verði yfir ferli friðlýsingar og hvað ákvörðun um slíkt kann að hafa í för með sér.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 18:30.

Getum við bætt efni þessarar síðu?